Fótbolti

Strákarnir falla um fjögur sæti á nýjum heimslista

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alfreð Finnbogason skoraði markið gegn Úkraínu.
Alfreð Finnbogason skoraði markið gegn Úkraínu. vísir/epa
Strákarnir okkar í karlalandsliðinu í fótbolta eru í 27. sæti á nýjum heimslista FIFA sem gefinn var út í morgun eins og Vísir greindi frá í síðustu viku

Íslenska liðið gerði 1-1 jafntefli við Úkraínu frá því að síðasta listi var gefinn út í byrjun ágúst en þrátt fyrir fallið niður listann er Ísland áfram langbesta liðið á Norðurlöndum.

Strákarnir okkar eru 17. besta liðið í Evrópu samkvæmt listanum en þar eru Austurríkismenn fyrir ofan okkur og Slóvakar fyrir neðan. Úkraína er í 29. sæti.

Næstu mótherjar Íslands í undankeppni HM 2018 eru Finnar og Tyrkir. Tyrkneska liðið er sjö sætum fyrir ofan Ísland í 21. sæti en það fellur niður um tvö sæti. Finnar falla aftur á móti niður um 23 sæti og eru í 84. sæti á nýja listanum.

Svíar eru næst efstir af Norðurlandaþjóðunum í 41. sæti, fjórtán sætum á eftir Íslandi. Danir eru í 46. sæti og Norðmenn í 70. sæti.

Argentína heldur efsta sæti listans og Belgar eru áfram í öðru sæti en Þýskaland og Kólumbía hafa sætaskipti. Þjóðverjar eru í þriðja sæti og Kólumbíumenn í fjórða. Brassar fara upp um fimm sæti og eru í fjórða sætinu ásamt Kólumbíu. England er í 12. sæti.

Hér má sjá allan listann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×