Innlent

Tölvuskeytið til Sigmundar líklega það sama og flestir hafa fengið

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Friðrik Skúlason tölvuöryggissérfræðingur segir milljónir slíkra pósta senda út daglega.
Friðrik Skúlason tölvuöryggissérfræðingur segir milljónir slíkra pósta senda út daglega.
Friðrik Skúlason tölvuöryggissérfræðingur segir tölvupóstinn sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks, fékk á dögunum væntanlega þann sama og flest allir tölvunotendur hafa fengið. Um sé að ræða tölvuvírus sem sendur sé út í milljónatali daglega.

„Þetta sem hann lýsti, að hann hefði fengið tölvupóst frá einhverjum sendanda sem reyndist síðan ekki hafa sent hann, er mjög algengt. Þetta er ein af þremur helstu leiðum sem notaðar eru til að reyna að koma njósnaforritum inn í tölvu hjá viðkomandi. Málið er hins vegar að það er tiltölulega algengt, allavega á Íslandi, að þessu sé beint beinlínis gegn ákveðnum aðilum stöðu þeirra vegna,“ segir Friðrik Skúlason í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.

Hann segir að bróðurpartur allra slíkra tölvupósta fari í svokallaðar ruslsíur og/eða að fólk átti sig á því að pósturinn sé vírus.  „Fólk er annað hvort ekki að hugsa, er of syfjað, hefur ekki tæknilega þekkingu eða gleypir við textanum sem er í skjalinu og opnar forritið.“

Friðrik segir að oftast séu það fjárglæframenn sem standi að baki tölvupóstssendingunum. „Mjög algengt er að forritið reyni að leita að einhverjum áhugaverðum upplýsingum í tölvunni; lykilorðum hér og þar eða vistuðum lykilorðum. Eins ef notandinn fer inn á heimabanka eða opna Paypal eða eitthvað þannig.“  Sjálfur segist hann hafa fengið fimm slíka tölvupósta senda, það sem af sé þessum degi.

Aðspurður hvað fólk geti gert láti það blekkjast af þessum tölvusendingum segir hann að best sé að hreinsa út tölvuna, jafnvel skipta um stýrikerfi til þess að vera öruggt. Ekki sé nauðsynlegt að skipta út harða disknum, líkt og Sigmundur Davíð lét gera. Það eitt og sér geti skapað ákveðin vandamál.

Hlusta má á viðtalið við Friðrik í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×