Fótbolti

Gunnhildur Yrsa: Mun alltaf gefa mig 100 prósent í öll verkefni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, landsliðskona í fótbolta, segir stelpurnar okkar klárar í slaginn gegn Slóveníu á föstudaginn en stig þar tryggir Íslandi sæti á EM í Hollandi á næsta ári.

Íslenska liðið er á toppi riðilsins með 18 stig, níu stigum meira en Slóvenar. Þegar liðin mættust ytra í fyrri leiknum vann Ísland, 6-0.

„Við erum alltaf klárar í alla leiki og stefnum alltaf á sigur. Það er langt síðan það hefur verið svona góð stemning í hópnum þannig það er bara gaman að við séum komnar saman aftur,“ segir Gunnhildur Yrsa í viðtali við Vísi.

„Þetta hjálpar sjálfstraustinu. Ég tel liðið vera fullt af sjálfstrausti. Við mætum í alla leiki og ætlum að vinna. Þetta er gott fyrir okkur og frábært fyrir Ísland líka.“

Gunhildur hefur tekið þátt í öllum sex leikjum íslenska liðsins í undankeppninni. Hún er fyrsti varamaður inn á miðjuna og kom inn á í fyrstu fimm leikjunum áður en hún byrjaði svo á móti Makedóníu í sumar.

„Ég tek bara hvaða hlutverki sem ég fæ hverju sinni. Mér finnst mjög gott bæði að koma inn á og líka að byrja leiki. Ég mun alltaf gefa mig 100 prósent í öll verkefni hvort sem það er inn á vellinum eða á bekknum,“ segir hún.

„Það er gaman að vita að allir leikmenn taka þátt og hafa sitt hlutverk í liðinu hvort sem það er inn á eða ekki. Freyr er mjög skýr með þetta sem mér finnst frábært,“ segir Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir.

Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×