Enski boltinn

Arnar og Bjarni vildu rautt á Bravo en Gummi Ben kom honum til varnar | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Claudio Bravo, markvörður Manchester City, fékk á sig klaufalegt mark í frumraun sinni í ensku úrvalsdeildinni en það kom ekki að sök því City vann Manchester United, 2-1, á Old Trafford.

Bravo var til umræðu í Messunni á Stöð 2 Sport HD í gærkvöldi en auk þess að gefa mark var hann kannski heppinn með að fá ekki á sig vítaspyrnu í seinni hálfleik þegar hann missti boltann frá sér og tæklaði hann svo hraustlega af Wayne Rooney.

„Hann var heppnasti maður í heimi í þessum leik. Í fyrsta lagi átti hann markið og svo átti hann að fá á sig víti. Það er ekkert verra fyrir varnarmenn en óöruggur markvörður,“ sagði Arnar Gunnlaugsson um frammistöðu Sílemannsins en svo kom að myndum af meinta brotinu.

„Þarna er hann bara heppinn. Þetta er bara víti og rautt spjald. Úti á miðjum velli er þetta brot og rautt spjald,“ sagði Arnar og Bjarni Guðjónsson tók undir.

„Hann fer með báða fætur af jörðinni. Ég hef fengið rautt fyrir það að stökkva í tæklingu. Algjörlega ósanngjarnt samt. Ég hringdi í okkar frægasta og besta dómara og hann segir að dómari leiksins hafi samt gert hárrétt.“

„Þeir eru alltaf að vernda hvorn annan,“ sagði Arnar Gunnlaugsson um dómarastéttina.

Guðmundur Benediktsson, æðsti prestur í Messunni, var ekki á því að Bravo væri brotlegur og rifust Messumenn um þetta í nokkra stund.

Alla umræðuna má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×