Erlent

Facebook þakkar Solberg fyrir

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Bréfið til Solberg var birt opinberlega í dag þar sem Facebook segist ætla að gera betur.
Bréfið til Solberg var birt opinberlega í dag þar sem Facebook segist ætla að gera betur. vísir/afp
Stjórnendur Facebook hafa þakkað Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, fyrir birtingu á sögulegri ljósmynd frá Víetnamsstríðinu. Fyrirtækið fjarlægði myndina á dögunum og leiddi sú ákvörðun til mikillar ólgu í Noregi og víðar. Um er að ræða ljósmynd af nokkrum börnum og hermönnum flýja undan napalm-sprengjuárás á sjöunda áratug síðustu aldar. Eitt barnanna er nakið á myndinni.

Sjá einnig:Facebook ritskoðaði forsætisráðherra Noregs

„Ég skrifa þér persónulega til þess að þakka fyrir að hafa vakið athygli á þessu mikilvæga málefni með birtingu ljósmyndar af Phan Thi Kim Phúc – og til þess að láta þig vita hversu alvarlega við tökum þessi mál,“ skrifar Sheryl Sandberg, framkvæmdastjóri hjá Facebook, í bréfinu til forsætisráðherrans. Bréfið var birt opinberlega á TV2 í dag.

Segjast ætla að gera betur

Ákvörðun Facebook var afar umdeild og vakti athygli víða, sem varð til þess að fyrirtækið dró ákvörðun sína til baka. Fyrst um sinn sagði talsmaður Facebook að ekki væri hægt að fara á skjön við reglurnar með því að birta eina mynd af nöktu barni á sama tíma og aðrar myndir væru bannaðar. Eftir mikla ólgu sögðu stjórnendur myndina hafa sögulegt gildi og drógu ákvörðun sína því til baka.

Sandberg segir í tölvupóstinum að reglur Facebook séu til þess fallnar að tryggja öryggi netverja. Hins vegar hafi gildi umræddrar ljósmyndar vegið þyngra en reglur kveði á um.  Sumar ákvarðanir séu erfiðari en aðrar en að framvegis muni fyrirtækið reyna að gera betur.

Erna Solberg hafði óskað eftir að fá að hitta Mark Zuckerberg, forstjóra Facebook, þegar hún fer á fund Sameinuðu þjóðanna í New York. Sandberg segir Mark ekki geta orðið við þeirri beiðni, þar sem hann verði ekki staddur í borginni á þeim tíma. Hins vegar geti stjórnendur Facebook fundað með henni, eða starfsfólki hennar, í Noregi á föstudag. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×