Fótbolti

Versta ákvörðun lífsins að fara til Liverpool

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Balotelli fagnar með Nice um helgina.
Balotelli fagnar með Nice um helgina. vísir/getty
Mario Balotelli virðist vera búinn að finna gleðina aftur í Nice en hann sér mikið eftir því að hafa farið til Liverpool á sínum tíma.

Hann var keyptur á 16 milljónir punda frá AC Milan árið 2014 og skoraði fjögur mörk í 28 leikjum fyrir enska félagið.

Balotelli skoraði svo eitt mark í 20 leikjum fyrir AC Milan síðasta vetur þar sem hann var í láni frá Liverpool.

„Það var versta ákvörðun lífsins að fara til Liverpool. Fyrir utan stuðningsmennina, sem voru frábærir, og nokkra leikmenn, sem mér líkaði við, þá líkaði mér ekki við félagið,“ sagði Balotelli um Liverpool.

„Ég var með tvo stjóra. Rodgers og svo Klopp til skamms tíma. Ég var hvorki hrifinn að aðferðum þeirra né persónuleika. Mér leið aldrei vel þarna.“

Hann skoraði tvö mörk fyrir Nice um helgina en Liverpool gaf hann til félagsins. Svo mikið var félaginu í mun um að losna við Ítalann.

Balotelli talaði áður um að hann ætlaði að verða besti fótboltamaður heims og sá draumur lifir enn hjá honum.

„Það er ekkert orðið of seint að hljóta slíka nafnbót. Ég hefði getað hlotið þá nafnbót nú þegar en með því að leggja hart að mér næstu tvö þrjú árin gæti draumurinn ræst,“ sagði jarðbundinn Balotelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×