Fótbolti

Dagný kom inn af bekknum og skoraði sigurmark á innan við tveimur mínútum | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir fagnar marki fyrir Portland.
Dagný Brynjarsdóttir fagnar marki fyrir Portland. mynd/portland thorns
Dagný Brynjarsdóttir, landsliðskona í fótbolta, skoraði sigurmarkið fyrir Portland Thorn í nótt þegar liðið lagði Western New York Flash, 3-2, og tryggði sér um leið heimaleikjarétt í úrslitakeppni bandarísku deildarinnar.

Dagný byrjaði leikinn á varamannabekknum en kom inn á eftir 67 mínútna leik. Innan við tveimur mínútum síðar fékk hún sendingu inn á teiginn eftir fallegt samspil heimakvenna og þrumaði Dagný boltanum í netið. Virkilega vel afgreitt.

Rangæingurinn kom Portland í 3-0 með markinu en gestirnir minnkuðu muninn í 3-2 með tveimur mörkum og varð þetta mark Dagnýar því að sigurmarki leiksins.

Portland er með 38 stig þegar ein umferð er eftir af deildarkeppninni, stigi á eftir Washington Spirit. Fjögur efstu liðin mætast í úrslitakeppninni en Portland fær heimaleik í undanúrslitum.

Dagný flýgur heim til Íslands í dag en stelpurnar okkar eiga á föstudaginn leik gegn Slóveníu í undankeppni EM 2017. Eitt stig þar kemur íslenska liðinu á EM þriðja skiptið í röð.

Hér að neðan má sjá öll mörkin úr leiknum en mark Dagnýjar kemur eftir tvær mínútur og fimmtán sekúndur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×