Innlent

Algjört sjokk, grétu og hringdu á lögregluna

Höskuldur Kári Schram og Samúel Karl Ólason skrifa
Vinkonurnar Bryndís Arna Bridde og Tinna Marín Sigurðardóttir sátu á bekk við Bæjarins Beztu í miðbæ Reykjavíkur þegar krani féll á planið á tólfta tímanum. Ótrúleg mildi er að enginn hafi slasast en stærðarinnar búnt af spýtum var í krananum sem féll við hlið bekkjarins.

Kraninn féll sömuleiðis og hafnaði toppur hans norðan megin við pylsuvagninn.

„Við sátum á bekk og síðan sá ég spýtur sveiflast úr krananum. Svo byrjuðu þær að detta og þá kom kraninn með. Þá stóð ég upp, hljóp af stað og öskraði á Tinnu,“ segir Bryndís.

Þær segja kranann hafa lent við hliðina á bekknum.

„Ég var í algjöru sjokki. Ég var mjög hrædd,“ segir Tinna. Bryndís segist hafa strax farið að gráta.

Oddur Hallgrímsson varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu að ekki sé vitað af hverju kraninn fór á hliðina en verið var að nota hann til vinnu. Hann segir þetta ekki vera algengt.

„Það er tryggingafélag, vinnueftirlit og annað þess háttar sem að taka við núna fljótlega og þá verður að fjarlægja kranann. Hann er hérna utan í húsunum. Það þarf aðra krana til að koma þessum í burtu.“

Nánar verður fjallað um slysið í kvöldfréttum Stöðvar 2 klukkan 18:30.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×