Erlent

Shimon Peres er látinn

Shimon Peres.
Shimon Peres. Vísir/AFP
Ísraelski stjórnmálamaðurinn Shimon Peres, sem tvívegis var forsætisráðherra landsins og einu sinni forseti, er látinn, 93 ár að aldri. Peres fékk slag fyrir hálfum mánuði en ástand hans hafði batnað nokkuð síðustu daga.

Heilsunni hrakaði hinsvegar hratt í gær og fór svo að hann lést. Peres má kalla einn af stofnendum Ísraelsríkis en hann var einn fárra eftirlifandi stjórnmálamanna sem voru komnir til sögunnar þegar ríkið var stofnað árið 1948.

Peres fæddist í Wisniew í Póllandi, sem nú er Vishnyeva í Hvíta-Rússlandi og var fyrst kjörinn á ísraelska þingið, Knesset, árið 1959. Hann átti sæti í tólf ríkisstjórnum.

Í ríkisstjórn átti hann þátt í að samþykkja byggingu húsaþyrpinga gyðinga á hernumdu svæðunum. Hann átti einnig þátt í Óslóar-samkomulaginu svokallaða árið 1993, fyrsta samning Ísraela og Palestínumanna sem kvað á um að unnið skyldi að því að þjóðirnar myndu lifa í samlyndi í heimshlutanum.

Hann gengdi embætti forsætisráðherra á árunum 1984 til 1986 og svo aftur 1995 til 1996 og svo embætti forseta á árunum 2007 til 2014.

Hann fékk Friðarverðlaun Nóbels árið 1994, ásamt þeim Yitzhak Rabin, þáverandi forsætisráðherra Ísraela, og Yasser Arafat, leiðtoga Palestínumanna, fyrir þátttöku sína í friðarviðræðum Ísraela og Palestínumanna. Peres gegndi á þessum tíma embætti utanríkisráðherra Ísraels.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×