Erlent

Sýrlandsher hefur nýja sókn gegn uppreisnarhópum í Aleppo

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Björgunarlið að störfum í austurhluta Aleppo eftir loftárás Sýrlandsher í gær.
Björgunarlið að störfum í austurhluta Aleppo eftir loftárás Sýrlandsher í gær. vísir/getty
Sýrlandsher tilkynnti nú undir kvöld að hann muni nú hefja nýja sókn gegn uppreisnarhópnum í austurhluta borgarinnar Aleppo, en herinn hefur staðið fyrir miklum sprengjuárásum á uppreisnarhópana síðustu daga, eða allt frá því að vopnahléinu lauk á mánudag.

Tilkynning Sýrlandsher kom í kjölfarið á árangurslausum fundi John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna með Sergey Lavrov utanríkisráðherra Rússlands og öðrum utanríkisráðherrum í gær en tilgangur fundarins var að kanna grundvöll fyrir því að semja á ný um vopnahlé.

Sá grundvöllur virðist ekki vera til staðar þar sem fundinum lauk eftir tvo tíma án niðurstöðu. Kerry sagði að ekki væri hægt að halda áfram á þessari braut en sagði jafnframt að hann hefði gefið Rússum annað tækifæri til þess að koma fram með raunhæfar lausnir á því hvernig stöðva má styrjöldina sem hefur geisað í Sýrlandi síðastliðin fimm ár.

Kerry sagðist eiga von á því að heyra frá Lavrov í dag, föstudag, en sagði ekki hvað Bandaríkin hyggjast fyrir ef Rússar gera ekki eins og um er beðið.

Í tilkynningu Sýrlandshers voru almennir borgarar hvattir til þess að halda sig frá þeim svæðum sem eru á valdi uppreisnarmanna. Þá var almenningur hvattur til að gefa sig fram á eftirlitsstöðvum Sýrlandsstjórnar þaðan sem koma á fólki í öruggt skjól.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×