Fótbolti

Aron: Hef vitað hvað Kiddi getur í mörg ár

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kristinn Freyr og Aron fagna marki þess síðarnefnda í leik með Fjölni í 1. deildinni 2010.
Kristinn Freyr og Aron fagna marki þess síðarnefnda í leik með Fjölni í 1. deildinni 2010. vísir/Þórdís Inga Þórarinsdóttir
Kristinn Freyr Sigurðsson, miðjumaður Vals í Pepsi-deild karla í fótbolta, hefur farið á kostum í sumar og skorað þrettán mörk í 18 leikjum. Þrátt fyrir að vera miðjumaður er hann næst markahæstur í deildinni á eftir Skagamanninum Garðari Gunnlaugssyni en Kristinn kemur sterklega til greina sem leikmaður ársins.

Kristinn er uppalinn Fjölnismaður og er besti vinur annars Fjölnismanns sem er í dag atvinnumaður og landsliðsmaður Bandaríkjanna. Hann heitir Aron Jóhannsson. Í viðtali við íþróttadeild segir Aron að hann sé búinn að njóta þess að sjá vin sinn blómstra í sumar en þetta er þó ekkert sem kemur honum á óvart.

Sjá einnig:Ekki langt frá því að tárast eftir endurkomu markið

„Ég er persónulega búinn að vita hvað Kiddi getur í mörg ár og það eru fleiri sem vita það. Þetta er tímabilið þar sem springur út. Það er alveg ógeðslega gaman að sjá hann standa sig svona vel því ég veit að hann getur þetta allt léttilega,“ segir Aron við Vísi.

Aron og Kristinn Freyr spiluðu saman með Fjölni í 1. deildinni 2010 en það var tímabilið sem bandaríski landsliðsmaðurinn sprakk út. Aron skoraði tólf mörk í 18 leikjum og var kosinn besti og efnilegasti leikmaður deildarinnar. Hann fór til AGF í Árósum í atvinnumennsku eftir tímabilið og spilar nú með Werder Bremen.

„Ég vona bara að Kiddi komist eitthvað út eftir tímabilið. Og ekki bara eitthvað heldur í lið sem spilar fótbolta því ef hann kemst í þannig lið er leiðin bara upp á við fyrir hann. Kiddi er leikmaður sem verður bara betri með betri leikmenn í kringum sig,“ segir Aron sem hefur líka mjög gaman að því að sjá uppeldisfélagið í Evrópubaráttu.

„Það er ótrúlega gaman að sjá Fjölni standa sig svona vel og vonandi klára þeir dæmið og komast í Evrópukeppni. Þeir eiga heldur betur stóran leik á sunnudaginn en eru í góðum málum ef þeir vinna,“ segir Aron Jóhannsson.


Tengdar fréttir

Ekki langt frá því að tárast eftir endurkomumarkið

Aron Jóhannsson sneri aftur á fótboltavöllinn í byrjun leiktíðar eftir að hafa verið frá í ellefu mánuði vegna meiðsla. Hann skoraði í öðrum leik tímabilsins fyrir Werder Bremen og fagnað á tilfinningaríkan hátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×