Skoðun

Fara bakdyramegin inn í lífeyrissjóðina!

Björgvin Guðmundsson skrifar
Eiga stjórnvöld eitthvað með að skerða lífeyri eldri borgara hjá almannatryggingum vegna greiðslna til þeirra úr lífeyrissjóði? Ég segi: Nei. Þau eiga ekkert með það. Þegar lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir, var gert ráð fyrir því, að þeir yrðu viðbót við almannatryggingar. Þeir áttu ekki að skerða almannatryggingar neitt. Ef slíkar ráðagerðir hefðu verið uppi, hefði launafólk aldrei greitt neitt í lífeyrissjóðina.

Þegar ríkisstjórn er að skerða lífeyri aldraðra hjá almannatryggingum eins og gerist nú, er eins og ríkisstjórnin sé að fara bakdyramegin inn í lífeyrissjóðina og láti greipar sópa þar um eigur okkar sjóðfélaga. Áhrifin eru nákvæmlega eins. Það verður að stöðva þetta strax. Það er ekki nóg að draga úr skerðingum. Þetta er ekkert samningsatriði. Við eigum þennan lífeyri í lífeyrissjóðunum. Við viljum fá hann óskertan á eftirlaunaaldri, hvorki meira né minna. Stjórnvöld þurfa ekki að vera að gorta af því að þau dragi úr skerðingum. Það á að afnema skerðinguna alveg, rétt eins og Bjarni Ben lofaði fyrir síðustu kosningar 2013 þó hann sé nú búinn að gleyma þessu loforði!

Þekkist ekki á  Norðurlöndunum

Þessar miklu skerðingar, sem hér eru, tíðkast ekki annars staðar á Norðurlöndunum. Þar fá eldri borgarar þann lífeyri, sem þeir hafa greitt í lífeyrissjóð óskertan. En auk þess er grunnlífeyrir þar miklu hærri en hér, þrefalt hærri. Hann er 120-130 þúsund krónur á mánuði þar. Heildarlífeyrir er einnig miklu hærri þar. Samt er hagvöxtur meiri hér og afkoma ríkissjóðs góð. Eftir hverju eru stjórnvöld þá að bíða? Aðstæður til þess að greiða öldruðum og öryrkjum hærri lífeyri eru góðar. Það vantar bara viljann.

Aldraðir greiða sjálfir mest af ellilífeyrinum

Athuganir hafa leitt í ljós, að lífeyrisþegar hér greiða miklu stærri hlut sjálfir í lífeyrinum til aldraða en gerist í hinum norrænu ríkjunum. Það stafar af því, að lífeyrissjóðirnir greiða svo mikið af lífeyrinum og ríkið skerðir á móti sínar greiðslur á vegum almannatrygginga. Tölur leiða í ljós, að hér greiða lífeyrisþegar sjálfir 60% af ellilífeyri sínum. Þetta er miklu hærra hlutfall en á Norðurlöndunum. Þar verður ríkið að greiða megnið af ellilífeyrinum en hér greiða eldri borgarar sjálfir stærsta hlutann af lífeyrinum. Samt kvartar og kveinar ríkið miklu meira hér en annars staðar á Norðurlöndunum og vill ekkert gera fyrir eldri borgara. Það er eins og ríkisstjórnin hér sé á móti eldri borgurum.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×