Innlent

Kvöldfréttir Stöðvar 2: „Af hverju ertu svona grimm á svipinn, væna?“

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
„Af hverju ertu svona grimm á svipinn, væna?“ spurði Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, Píratann Ástu Guðrúnu Helgadóttur í atkvæðagreiðslu í þinginu á dögunum.

Ásta segir þetta dæmi um svokallaða hrútskýringu, en mikið hefur verið rætt um þetta tiltölulega nýja hugtak undanfarið.

Mest var umræðan sennilega þegar Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, lét sama þingmann Sjálfstæðisflokks, Jón Gunnarsson, heyra það í morgunþætti á dögunum þar sem þau ræddu rammaáætlun. Ummæli Jóns um að Björt þyrfti að kynna sér málefni rammaáætlunar betur fóru mjög fyrir brjóstið á henni og lét hún hann hafa það óþvegið í beinni útsendingu:

Sjá einnig: Björt vill ekki sitja undir kjaftæði miðaldra kalla

„Ég nenni ekki að sitja undir þessu. Ég nenni ekki enn eina ferðina að hér sé miðaldra karl sem segi – heyrðu vinkona, viltu gjöra svo vel kynna þér aðeins málið betur. Ég nenni ekki svona kjaftæði. Ég er búin að sitja með þér í atvinnuveganefnd í þrjú ár.“

Hrútskýringar, eða mansplaining líkt og það útleggst á ensku, er sett saman úr orðinu hrútur og útskýra – og er notað yfir það þegar einhver útskýrir eitthvað fyrir einhverjum á yfirlætisfullan hátt líkt og viðkomandi viti ekkert um málið. Oftast eru þetta karlmenn sem sagðir eru hrútskýra fyrir konum – en konur geta líka hrútskýrt.

Þórhildur Þorkelsdóttir, fréttamaður, fór á stúfana og ræddi við þingkonur sem sögðu hrútskýringar óumflýjanlegan hluta af vinnudeginum á Alþingi – en auðvelt sé að sjá spaugilegu hliðina á sumum hrútskýringum.

Meira um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld, sem hefjast á slaginu 18.30.


Tengdar fréttir

Ísland sofnað á verðinum í jafnréttismálum

Sigríður María Egilsdóttir skipar fimmta sæti á lista Viðreisnar í Reykjavík norður. Hún segist heillast af flokknum því þar verði nýr tónn gefinn í íslenskri umræðu. Sigríður hefur hellt sér út í breytingar á námslánakerfinu

Sakaði fjármálaráðherra um kvenfyrirlitningu

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sakaði Bjarna Benediktsson um kvenfyrirlitningu þegar hann bað Katrínu Júlíusdóttur um að róa sig.

„Helvítis dóni“

Upp úr sauð á Alþingi í dag þegar Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, kallaði Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, helvítis dóna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×