Jarðskjálftahrinan hófst um hádegi í gær og stendur enn. Hún er sú mesta á svæðinu síðan árið 2011. Vísindamenn Veðurstofu Íslands fylgjast vel með Kötlu.
„Svona upp úr hádegi í gær þá fór að aukast heilmikið jarðskjálftavirknin í Kötlu. Hún hefur verið mjög öflug bæði í gærkvöldi og í alla nótt. Þessi virkni heldur áfram. Við höfum fengið nokkra skjálfta sem eru stærri en þrír. Sá stærsti 3,7 varð eldsnemma í morgun og þessi virkni hún er öll á svipuðum slóðum svona afmarkað svæði sunnarlega í öskjunni. Það sem við vitum er að þetta er mjög grunn virkni. Hún virðist vera bara alveg í efstu kílómetrunum. Kannski efstu tveimur kílómetrunum,“ segir Kristín Jónsdóttir fagstjóri jarðvár hjá Veðurstofu Íslands.

„Það getur vel farið svo að Katla gjósi í framhaldinu og þá myndum við búast við því að sjá merki á mælunum okkar um það þá sjáum við svona titring eða gosóróa sem kemur skýrt fram á jarðskjálftamælunum. Við erum ekki farin að sjá það enn þá en það getur vel farið svo. Við getum líka séð það að það myndi fara að bráðna eitthvað, án þess þó að það yrði gos og við fengjum hlaup, sem að líklegast er að kæmi þá fram í Múlakvísl en við verðum bara dálítið að bíða og sjá hvað gerist núna,“ segir Kristín.
Hún segir að áfram verði fylgst náið með stöðunni á svæðinu. „Katla virðist vera að ræskja sig eitthvað núna og við búum okkur undir það að þetta gæti orðið eitthvað meira,“ segir Kristín.