Erlent

Varð fimm að bana er hann ók á móti umferð

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá slysstað
Frá slysstað Vísir/Ap
Maður sem ók á móti umferð á hraðbraut í Vermont í Bandaríkjunum í gær er talinn hafa orðið 5 að bana með háskalegu ökulagi sínu. Þá slösuðust einnig fjölmargir og eignatjón var mikið. Til að mynda kviknaði í tveimur bílum.

Fjölmiðlar vestanhafs greina frá því að neyðarlínunni hafi borist símtöl frá óttaslegnum vegfarendum í gærkvöldi sem greindu frá bifreið sem æki á öfugum vegarhelmingi. Lögreglumenn hófu þá strax leit að bifreiðinni en þeim tókst ekki að hafa hendur í hári ökumannsins áður en hann hafði ekið á annan bíl.

Þegar lögreglumenn komu á slysstað hófust þeir strax handa við að slökkva eld sem komið hafði upp og bjarga konu sem sat föst í öðru bílflakinu. Meðan þeir athöfnuðu sig greip ökumaðurinn tækifærið og settist undir stýri lögreglubílsins sem komið hafði á vettvang og ók á brot - aftur á móti umferð.

Þó svo að ekki sé búið að staðfesta að sami maður hafi verið að verki í báðum tilvikum telja lögreglumenn vestra það mjög líklegt.

Maðurinn ók lögreglubílnum alls á sjö aðrar bifreiðar áður en hann staðnæmdist að lokum. Hann var handtekinn á staðnum. Sem fyrr segir létu fimm manns lífið og fjöldi fólks var færður á sjúkrahús til aðhlynningar.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×