Erlent

Bjó með líki ömmu sinnar í hálft ár

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Maðurinn fjárfesti í fjöldamörgum ilmspjöldum til að vinna bug á óþefnum.
Maðurinn fjárfesti í fjöldamörgum ilmspjöldum til að vinna bug á óþefnum. Twitter
Lögreglan í New York handtók mann um þrítugt á fimmtudaginn sem hafði deilt íbúð með líki ömmu sinnar svo mánuðum skiptir.

AP fréttaveitan greinir frá þessu á vef sínum en þar kemur fram að maðurinn, Christopher Fuhrer, hafi óttast að hann þyrfti að flytja úr íbúðinni, sem var í eign ömmu hans, ef hann greindi yfirvöldum frá andláti hennar.

Þess í stað hafi hann ákveðið að vefja fjölmörgum plast- og ruslapokum um lík hennar ásamt því að kaupa ógrynni ilmspjalda, ekki ósvipuðum þeim sem hengd eru í baksýnisspegla bifreiða. Það gerði hann til að vinna bug á óþefnum.

Það var móðir Fuhrers og dóttir gömlu konunnar sem fór fram á að málið yrði rannsakað eftir að hún hafði ekki heyrt frá móður sinni í um hálft ár. Þegar lögreglan spurði manninn út í líkið sagði Fuhrer að hann hafi óttast að verða heimilslaus ef einhver kæmist á snoðir um andlátið.

Lögregluembættið í New York rannsakar nú dánarorsökina en ekki er talið að andlátið hafi borið að með saknænum hætti. Fuhrer hefur hins vegar verið ákærður fyrir að leyna yfirvöld upplýsingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×