Svæðið allt er tæpir tuttugu hektarar að stærð. Innan þess svæðis átti ríkið rúmlega tveggja hektara land þar sem hverina Geysi, Strokk, Blesa og Óþerrisholu er að finna. Það sem eftir stóð var áður í sameign ríkisins og landeigenda.

Deilt hefur verið um landið undanfarin ár. Árið 2014 hófu landeigendur að rukka aðgangsgjald á svæðið en lögbann var lagt við því. Hæstiréttur sagði í október í fyrra að gjaldtakan hefði verið ólögmæt.
„Það eru skiptar skoðanir hjá landeigendum um söluna en við teljum að þarna sé verið að þjóðnýta einstaklingseigu til að þjónusta græðgi ferðaþjónustunnar,“ segir Garðar.
Ríkið fer með umráð yfir landsvæðinu frá undirritun kaupsamningsins en kaupverð hefur enn ekki verið ákveðið. Dómkvaddir verða þrír matsmenn sem fá það hlutverk að meta verð landsins. Sætti annar hvor aðila sig ekki við niðurstöðu matsmanna verður hægt að skjóta málinu til þriggja manna úrskurðarnefndar. Hvor aðili tilnefnir einn mann í nefndina en oddamaður verður útnefndur af Héraðsdómi Reykjavíkur takist ekki að semja um hann.
Niðurstöðu nefndarinnar verður hægt að skjóta til fimm manna áfrýjunarnefndar en niðurstaða hennar um málið verður endanleg.
„Þetta var ill nauðsyn,“ segir Hjörleifur B. Kvaran, lögmaður Landeigendafélagsins. „Okkur hafði verið tilkynnt að ef við gengjum ekki að samkomulaginu, þá yrði landið tekið eignarnámi. Það var mat landeigenda að með þessu móti hefðu þeir betri aðkomu til að tryggja rétt sinn varðandi verðmæti landsins.“
Ekki náðist í Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra við vinnslu fréttarinnar.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.