Innlent

Persónuvernd ætlar að skoða vefþjón DV

Jakob Bjarnar skrifar
Sigurður G. og Reynir hafa lengi eldað grátt silfur og sér ekki fyrir endann á þeim væringum.
Sigurður G. og Reynir hafa lengi eldað grátt silfur og sér ekki fyrir endann á þeim væringum. visir/anton brink
Menn á vegum Persónuverndar hafa boðað komu sína í húsakynni DV með það fyrir augum að fara yfir netþjón DV. Skoðað verður sérstaklega hvernig staðið var að lokun tölvupósthólfa fyrrverandi starfsmanna.

Meðferð DV ehf. á tölvupósthólfum Jóns Trausta Reynissonar ritstjóra Stundarinnar, Heiðu B. Heiðarsdóttur auglýsingastjóra Stundarinnar og Reynis Traustasonar, blaðamanns og rithöfundar, var ekki í samræmi við lög og reglur um persónuvernd. Svör sem borist hafa frá núverandi eigendum eru ekki fullnægjandi. Ætlar Persónuvernd að mæta í húsakynni DV eftir viku og skoða nánar hvernig staðið var að málum varðandi tölvupósta þremenninganna hjá DV ehf.

Þetta kemur meðal annars fram í bréfi sem Persónuvernd hefur sent Sigurði G. Guðjónssyni lögmanni en hann er í eigendahópi DV.

Málið hvílir á gömlum merg og má rekja allt aftur til mikilla átaka sem snérust um eignarhald á DV. Voru þau milli Reynis annars vegar og Sigurðar og hóps sem hann fór fyrir hins vegar. Þetta var síðsumars 2014. Það endað með því að Reynir var hrakinn frá borði, sjálfur segist hann hafa verið rekinn af kröfu Björns Leifssonar sem kenndur er við World Class, en Björn átti þá hlut í blaðinu, hann hafði keypt 4,4 prósenta hlut í útgáfufélaginu. Reynir og Björn, sem reyndar eiga báðir ætt og uppruna að rekja til Flateyrar, hafa lengi staðið í átökum einkum vegna fréttaflutnings DV af viðskiptum Björns.

Strax kjölfarið kom upp sérkennilegt mál sem snýr að ólögmætri dreifingu á handriti bókar Reynis – Afhjúpun, sem er fréttaævisaga hans. Sigurður G. vitnaði í bókina óútkomna á Facebooksíðu sinni og það taldi Reynir afdráttarlaust lögbrot af hálfu forráðamanna DV og Sigurðar G. Guðjónssonar. „Sem var auðvitað lykilpersóna í öllu leikritinu, sagði Reynir í samtali við Vísi þegar greint var frá niðurstöðu Persónuverndar að meðferð á tölvupósthólfunum hefði ekki verið í samræmi við persónuverndarlög.


Tengdar fréttir

„Þessi gata verður farin til enda“

Reynir Traustason hefur leitað til Persónuverndar eftir að Sigurður G. Guðjónsson birti kafla úr væntanlegri sjálfsævisögu Reynis á Facebook-síðu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×