Innlent

„Getur ekki talist ásættanlegt að vera ekki í vinnunni“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG. Vísir/Vilhelm
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, gagnrýndi í morgun lélega mætingu ákveðinna þingmanna undanfarna mánuði. Fór hún fram á að forseti Alþingis og forsætisnefnd taki málið upp.

„Það getur ekki talist ásættanlegt að vera ekki í vinnunni, það er að segja sinna ekki þingstörfum hér eða taka þátt í nefndarvinnu svo vikum og mánuðum skiptir og fá greidd laun af skattfé almennings,“ sagði Bjarkey, sem tiltók þó ekki um hvern ræðir.

Töluvert hefur verið um fjarvistir þingmanna að undanförnu. Fresta þurfti atkvæðagreiðslum þriggja mála á Alþingi á dögunum, svo dæmi sé nefnt. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa gagnrýnt stjórnarliða síðustu vikur fyrir lélega mætingu, og segja þá í kosningabaráttunni frekar heldur en að sinna störfum sínum.

Bjarkey sagði að bregðast verði við þessum fjarvistum. „Þess vegna velti ég fyrir mér að ef þetta kæmi upp að það myndu tíu þingmenn hegða sér svona, hvernig á þá að bregðast við og hvað á að gera? Er það eitthvað sem við getum fellt okkur við. Mér finnst að þetta sé eitthvað sem forseti og forsætisnefnd þyrftu að taka til alvarlegrar skoðunar því það getur ekki talist eðlilegt að þingmenn séu ekki hér að taka þátt í afgreiðslu mála.“

Úttekt Fréttablaðsins frá því í síðasta mánuði leiddi í ljós að þingmenn Samfylkingarinnar voru oftast fjarverandi þegar kom að atkvæðagreiðslum á kjörtímabilinu en Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, var sá þingmaður sem var oftast fjarverandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×