Innlent

Konur fimm prósent af greiðendum meðlags

Sveinn Arnarsson skrifar
Kristín Ástgeirsdóttir jafnréttistýra.
Kristín Ástgeirsdóttir jafnréttistýra. vísir/valli
Aldrei hafa jafn margir Íslendingar greitt meðlag ef miðað er við 1. janúar síðastliðinn. Alls voru 11.725 einstaklingar meðlagsskyldir í upphafi árs.

Aðeins rétt rúmlega fimm prósent meðlagsgreiðenda eru konur, eða 687 talsins. 11.308 karlar eru meðlagsskyldir hér á landi.

„Maður sér þetta á mörgum stöðum í tölum Tryggingastofnunar til dæmis,“ segir Kristín Ástgeirsdóttir jafnréttisstýra. „Það kemur mjög skýrt fram að konur með börn eru í meirihluta þeirra sem fá fátæktaraðstoð og að konur eru líklegri til að vera öryrkjar en karlar. Það er eitthvað í kerfinu sem við þurfum að skoða mun betur.“

Forsjármálum hefur fjölgað mikið undanfarið hjá dómstólunum og segir Dagný Rut Haraldsdóttir, lögfræðingur hjá Félagi einstæðra foreldra, dómstóla vera að drukkna í forsjármálum milli foreldra. „Við höfum bent á að það þurfi að efla svokallaða sáttamiðlun og erum að fara af stað með það verkefni,“ segir Dagný Rut. „Með því gæti verið unnt að draga úr álagi á dómskerfið, málum sem margir hverjir vilja leysa utan dómstólanna með örlítilli aðstoð.“

Fram kemur í gögnum Innheimtustofnunar sveitarfélaga, sem sér um innheimtu meðlagskrafna, að yngsti meðlagsskyldi einstaklingurinn er 17 ára barn. Sá elsti sem greiðir meðlag í dag er hins vegar níræður, fæddur árið 1926. Að sögn Braga Axelssonar, lögfræðings Innheimtustofnunar, eru börn ekki rukkuð um meðlag fyrr en þau ná 18 ára aldri og fá þau aðstoð og ráðleggingar með forráðamönnum um hvernig sé best að haga málum.

Kristín segir þessa sterku stöðu konunnar í tölunum kannski ekki endurspegla allan sannleikann þar sem barn getur enn ekki haft tvö lögheimili. Því fari lögheimilið oft til móður.

„Þetta var hugsað sem stuðningur við fátækar mæður í upphafi. Fram til ársins 1920 var það þannig að ef feður viðurkenndu óskilgetið barn öðluðust þeir allan rétt án þess að móðirin hefði nokkuð um það að segja. Þessi sterka staðar móður kostaði því mikla baráttu,“ segir Kristín. „Við skulum ekki gleyma að hagsmunir barnsins eiga að vera í fyrirrúmi en ekki réttur feðra eða mæðra. Þetta á að vera spurning um hvar barninu líður best.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×