Innlent

Þolendur ofbeldis fá samhæfðari hjálp

Snærós Sindradóttir skrifar
Við undirritun viljayfirlýsingar um verkefnið í gær. Að verkefninu stendur Reykjavíkurborg, félagsmálaráðherra, innanríkisráðherra, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Kvennaathvarfið, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Kvennaráðgjöfin, Drekaslóð og Stígamót.
Við undirritun viljayfirlýsingar um verkefnið í gær. Að verkefninu stendur Reykjavíkurborg, félagsmálaráðherra, innanríkisráðherra, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Kvennaathvarfið, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Kvennaráðgjöfin, Drekaslóð og Stígamót. vísir/ernir
Þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis verður opnuð við Bústaðaveg í Reykjavík á næstunni. Í vikunni skrifuðu níu samstarfsaðilar um verkefnið undir viljayfirlýsingu þess efnis en miðstöðin hefur hlotið nafnið Bjarkahlíð. Markmið Bjarkahlíðar er að veita þolendum ofbeldis samhæfða þjónustu og ráðgjöf, viðtöl við félagsráðgjafa og lögreglu ásamt viðtölum við grasrótarsamtök á borð við Stígamót og Drekaslóð, þeim að kostnaðarlausu.

Í húsnæðinu verður jafnframt veitt bráðaþjónusta þar sem lögregla getur tekið skýrslu í húsinu og vísað þolendum áfram til ráðgjafa.

Fréttablaðið sagði fyrst frá opnun miðstöðvarinnar í júlí síðastliðnum. Þá sagði að áhersla yrði lögð á að veita stuðning í fjölskylduvænu og heimilislegu umhverfi fyrir þolendur kynferðisofbeldis eða ofbeldis í nánum samböndum. Miðstöðin eigi sér bandaríska fyrirmynd en slíkar miðstöðvar eru reknar víða um Bandaríkin.

Um tilraunaverkefni er að ræða til ársins 2018. Velferðarráðuneytið kemur til með að leggja tíu milljónir króna á þessu ári til verkefnisins og tuttugu milljónir árið 2017 og 2018. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×