Erlent

Pólska þingið hafnar lagafrumvarpi um bann við fóstureyðingum

Atli Ísleifsson skrifar
Svartur mánudagur var haldinn fyrr í vikunni.
Svartur mánudagur var haldinn fyrr í vikunni. Vísir/AFP
Pólska þingið hafnaði í morgun með yfirgnæfandi meirihluta lagafrumvarpi sem myndi fela í sér nær algert bann við fóstureyðingum í landinu. BBC greinir frá þessu.

Þetta gerist í kjöfar gríðarlega fjölmennra mótmæla í Póllandi, sem og víða um heim, gegn frumvarpinu.

Þúsundir andstæðinga lagabreytinganna lögðu niður störf á mánudag til að beita pólskum stjórnvöldum þrýstingi til að hverfa frá hugmyndum sínum.

Mótmæladagurinn var nefndur Svartur mánudagur, en í tilefni hans klæddust konur svörtu og flykktust út á götur helstu borga Póllands þúsundum saman, með mótmælaspjöld og hrópuðu vígorð gegn áformum stjórnarinnar.

Lög um fóstureyðingar í Póllandi eru nú þegar ein þau ströngustu í Evrópu, en einungis tvö önnur ríki í Evrópu eru með svo stranga fóstureyðingarlöggjöf - Malta og Páfagarður.

Samkvæmt frumvarpinu, sem pólska þingið hefur nú hafnað, hefði verið gengið enn lengra og fóstureyðingar bannaðar með öllu nema ef móðirin er í lífshættu. Viðurlög við fóstureyðingum hefðu orðið fimm ára fangelsi, bæði fyrir móðurina og þá sem kunna að framkvæma aðgerðina.

Íslenskir þingmenn höfðu einnig þrýst á pólsk stjórnvöld að hverfa frá lagabreytingunum. Þá var haldinn samstöðufundur á Austurvelli.

Laga- og réttlætisflokkurinn, sem er fimmtán ára gamall flokkur hægrisinnaðra íhaldsmanna, hefur haldið um stjórnartaumana í Póllandi í tæpt ár, eða frá því hann sigraði með yfirburðum í þingkosningum í október á síðasta ári. Flokkurinn fékk þá 235 þingsæti af 460 og fer því með meirihluta á þingi án þess að þurfa stuðning frá öðrum flokkum.

Kaþólska kirkjan í Póllandi hefur eindregið stutt stjórnina í þessum áformum.


Tengdar fréttir

Pólskar konur mótmæltu

Áformum pólsku ríkisstjórnarinnar um að banna fóstureyðingar var harðlega mótmælt í gær með kvennaverkfalli og fjöldafundum víða í Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×