Innlent

Kvöldfréttir Stöðvar 2: „Fátæktargildra að greinast ungur með krabbamein á Íslandi“

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Kristín Þórsdóttir, eiginkona Kristjáns Björns Tryggvasonar sem glímir við krabbamein í heila, segir ungt fólk ekki hafa efni á krabbameinsmeðferðum.

„Ég er að tala um fólk í blóma lífsins, með fjölskyldu og börn, eða í námi. Þetta fólk getur ekki greitt einhverjar milljónir í lækniskostnað. Þetta meikar ekki sens,“ útskýrir Kristín, en eiginmaður hennar hefur glímt við heilaæxli undanfarin tíu ár og hefur á þeim tíma undirgengist fjölda lyfjameðferða og 30 skipta geislameðferð.

Kristín og eiginmaður hennar tóku þá ákvörðun í sumar í samráði við lækna og sína nánustu fjölskyldu að Kristján færi ekki í fleiri meðferðir. Sjúkdómurinn sé á lokastigi og þau vilji frekar skapa góðar minningar með þremur ungum börnum sínum á þeim stutta tíma sem eftir er, án aukaverkanna af erfiðum krabbameinsmeðferðum.

Kristín á sæti í stjórn Krafts, félags sem styður við ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra. Henni finnst ekki nóg að gert.

„Ég skil ekki alveg hvaða hag þjóðfélagið hefur af því að setja ungt fólk í fátæktargildru. Því það er fátæktargildra að greinast ungur með krabbamein á Íslandi.“

Ítarlega verður rætt við Kristínu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld þar sem hún segir sögu sína. Fréttir hefjast á slaginu 18.30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×