Innlent

Enginn stigið fram þótt fjöldi vitna eigi að hafa orðið vitni að dýraníði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lömbin á myndinni tengjast fréttinni ekki.
Lömbin á myndinni tengjast fréttinni ekki. vísir/stefán
Enginn hefur stigið fram vegna misþyrmingar á lambi í Öxnadal í Eyjafirði helgina 17. til 18. september. Matvælastofnun óskaði eftir vitnum í tilkynningu í gær og minnti á að nafnleynd væri í boði ef þess væri krafist. 

Mbl greindi frá málinu í gærmorgun þar sem fram kom að mýmörg vitni hefðu orðið að misþyrmingu lambsins við smölun. Einn smalanna hefði tekið örmagna lamb, gengið í skrokk á því og stappað á hálsi þess. Mörgum hefði brugðið. 

Sama dag hefði fundist lamað lamb í Þverárrétt og óskaði Ólafur Jónsson, héraðsdýralæknir á Akureyri í norðausturumdæmi, eftir því að slá lambið af og kryfja það svo. Eigandi þess vildi hins vegar ekki afhenda lambið. Grunur leikur á að um sama lamb sé að ræða en það hefur ekki fengist staðfest, meðal annars vegna þess að lambið fékkst ekki afhent.

Ætla að fá botn í málið

Ólafur segir í samtali við Vísi í dag að málið sé í stöðugri skoðun og staðan verði tekin á því í dag eða á morgun. Matvælastofnun hafi borist nafnlausar ábendingar í september um fyrrnefnda atburði og málið verið í skoðun síðan.

„Við höfum leitað til fjölda manna, beðið um greinargerði, óskað eftir myndböndum og vitnum,“ segir Ólafur og greinilegt að málið er tekið afar alvarlega á þeirra borði. Það sýnir tilkynning þeirra og ósk eftir frekari vitnum í gær.

„Við göngum ekkert svona út nema við teljum annað fullreynt. Það sýnir staðfestu okkar í að fá botn í þetta mál.“

Málinu ekki lokið

Dýralæknirinn leggur þó áherslu á að um liðinn atburð sé að ræða, ekki sé grunur um stöðugt dýraníð. Hann vildi hvorki tjá sig um það hvort farið yrði fram á að fá hræ lambsins til rannsóknar eða hvort rætt hefði verið frekar við hinn grunaða nýðing.

Málið er ekki komið á borð lögreglu en Matvælastofnun vinnur að öflun gagna og hvetur vitni til að stíga fram.

„Þessu máli er ekki lokið. Við gefum okkur þann tíma sem til þarf.“

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×