Innlent

Kona með lifrarbólgu C stakk lögreglumann á Akureyri með sprautunál

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Konan, sem talin er smituð af lifrarbólgu C, hefur margoft komið við sögu lögreglu.
Konan, sem talin er smituð af lifrarbólgu C, hefur margoft komið við sögu lögreglu. vísir/pjetur
Lögreglumaður á Akureyri var stunginn með sprautunál í miðbæ Akureyrar í síðasta mánuði. Ung kona í annarlegu ástandi er sögð hafa veist að manninum og slegið í hönd hans með nálinni, en grunur leikur á að konan konan sé smituð af lifrarbólgu C.

Þetta staðfestir Gunnar Jóhannsson, lögreglufulltrúi á Akureyri, í samtali við Vísi. Hann segir að lögreglumaðurinn hafi fengið viðeigandi meðferð og að vel sé fylgst með líðan hans. Enn sé ekki vitað hvort hann hafi smitast af konunni.

Konan hefur að sögn Gunnars oft komið við sögu lögreglu. Hún var handtekin eftir árásina en sleppt úr haldi degi síðar.

Málið er komið á borð héraðssaksóknara, sem rannsakar mál af þessu tagi. Gunnar segir málið litið alvarlegum augum, en að þetta sé sá raunveruleiki sem blasi við lögreglumönnum landsins.

„Þetta er sem betur fer mjög sjaldgæft en þetta er bara raunveruleikinn í dag og sýnir hve margt ber að varast og hvað það er áhættusamt að starfa í lögreglunni. Lögreglumenn geta alltaf átt von á svona,“ segir Gunnar.

Heimildir Vísis herma að konan sé smituð af sjúkdómnum, en Gunnar vildi þó ekki staðfesta það. Hins vegar leiki grunur á því og að lögreglumaðurinn fái meðferð eftir því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×