Innlent

Þingmaður Bjartrar framtíðar ánægður með nýjan formann Framsóknarflokksins

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson á leiðinni upp í pontu þegar búið var að tilkynna um sigur hans í formannskjörinu.
Sigurður Ingi Jóhannsson á leiðinni upp í pontu þegar búið var að tilkynna um sigur hans í formannskjörinu. vísir/anton brink
Róbert Marshall þingmaður Bjartrar framtíðar gerði formannskjör í Framsóknarflokknum að umtalsefni á Alþingi í dag undir liðnum störf þingsins. Sagði hann að tveir atburðir á síðustu mánuðum bentu til þess að hér á landi gætu hlutirnir verið að færast í betra horf. Nefndi hann annars vegar kjör Guðna Th. Jóhannessonar sem forseta Íslands og hins vegar kjör Sigurðar Inga Jóhannssonar sem formanns Framsóknarflokksins.

Sagði hann kjör Guðna gleðilegan áfanga í ljósi þeirra valkosta sem voru í stöðunni, annars vegar stjórnmálamaður mikilla átaka og hins vegar mannasættir á borð við Guðna Th.

„Það sama blasir við í nýliðnu formannskjöri Framsóknarflokksins og ég vil nota þetta tækifæri hér og óska Framsóknarflokknum til hamingju með að hafa tekið að mínu mati gæfuspor um helgina vegna þess að valkostirnir þar voru af þessum tveimur skólum sem ég nefndi hér áðan, annars vegar maður sem hefur gert átök að meginstefi síns stjórnmálaferils og hins vegar hæstvirtur forsætisráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson sem hefur sýnt það á undanförnum mánuðum að hann er maður sátta, maður samtalsins sem hægt er að ræða við og komast að niðurstöðu og hún stendur,“ sagði Róbert.

Hann hvatti síðan flokkana á þingi og aðra sem eru í framboði til þingkosninga að fara þá leið að vera á nótum samtalsins og vinna frekar í átt að sátt og sameiginlegri niðurstöðu.

„Það er kominn tími til þess að kveðja tíma átakanna í pólitíkinni. að er út af því sem við lögðum af stað í þann leiðangur sem Björt framtíð stendur fyrir, að reyna að breyta stjórnmálunum í þá átt. Það er mjög ánægjulegt að sjá það gerast og við eigum að nýta tækifærið og halda áfram á þeirri braut.“


Tengdar fréttir

Sigmundur Davíð: „Á flokksþinginu og í aðdraganda þess urðu atburðir sem ég hefði ekki trúað að gætu átt sér stað í Framsóknarflokknum“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins trúði því ekki að þeir atburðir sem áttu sér stað á flokksþingi Framsóknarmanna og aðdraganda þess gætu átt sér stað í flokknum. Þess vegna hefur hann ekki viljað ræða við fjölmiðla efitr þingið og segist enn ætla að bíða með það.

Segja sannanir fyrir svindli í formannskjöri Framsóknar

Formaður Framsóknarfélagsins í Reykjavík fullyrðir að átt hafi verið við kjörskrá á flokksþinginu um helgina. Borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina segir fjármagnseigendur hafa rænt völdum af grasrótinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×