Skoðun

„Leiðréttingin“ - afrek ríkisstjórnarinnar?

Bolli Héðinsson skrifar
Enn er fólk borið úr húsum sínum þrátt fyrir „leiðréttingu“ ríkisstjórnar enda ákvað hún að fjármunir sem fengust frá erlendum kröfuhöfum skyldu að stórum hluta greiddir til þeirra sem síst skyldi í stað þess að setja í forgang þá sem mest þurftu á aðstoð að halda. Einnig ákvað ríkisstjórnin að hafa að engu samkomulag sem komið var á við hóp lánsveðshafa og því eru þeir meðal þeirra sem nú fá að finna til tevatnsins. (https://kvennabladid.is/2015/05/02/ad-missa-heimilid-sitt-2/)

Meðal helstu afreka sem ríkisstjórnin telur sig hafa unnið eru glíman við „hrægammasjóðina“ og þeir fjármunir sem þeir greiddu í ríkissjóð. Að vísu eru fjárhæðirnar sem náðust aðeins brot af þeim fjármunum sem ríkisstjórnin lofaði en sem kunnugt er voru þeir að mestu sóttir í vasa þjóðarinnar sjálfrar.

Glíman við kröfuhafa bankanna hefur staðið allt frá hruni. Unnið var samfellt að því að tryggja þjóðarhag m.a. með lagasetningum sem tryggðu hagsmuni þjóðarinnar. Í því skyni var efnt til víðtækrar pólitískrar samstöðu og settir á laggirnar þverpólitískir starfshópar til að tryggja sem mest samráð.

Sérfræðinganefnd um afnám hafta

Meðal þess sem sett var á laggirnar var sérfræðinganefnd allra stjórnmálaflokka til að vinna að afnámi hafta. Ein meginforsendan voru samningar við kröfuhafa. Verulegur tími fór í að kortleggja þann vanda sem við var að glíma áður en hægt var að takast á við hann. Í upphafi árs 2013 lá loksins ljóst fyrir með hvaða hætti væri hægt að vinna að afnámi gjaldeyrishaftanna og forsendu þess, samningar við kröfuhafa bankanna. Þá þegar var orðið ljóst hvaða upphæðir myndu koma í hlut ríkisins við þessar aðgerðir.

Útfærsla atriðanna var svo næsta skref. Þegar að því kom hafði verið kosið til Alþingis og ný ríkisstjórn ákvað að taka málin úr allri þverpólitískri samvinnu. Líklegust ástæða þess, er að svo mikið lá við að sýna fram á að hér væri um árangur hinnar nýju ríkisstjórnar að ræða en ekki afleiðing samfelldrar vinnu sem unnin hafði verið í samstarfi allra flokka misserin á undan.

Hér má sjá nefndarmenn á gangi í Washington DC eftir fundina með Alþjóða gjaldeyrissjóðnum (IMF) í febrúar 2013.  Frá vinstri: Sigurður Hannesson, fulltrúi Framsóknarflokksins. Björn Rúnar Guðmundsson, starfsmaður fjármálaráðuneytisins. Bolli Héðinsson, fulltrúi Samfylkingarinnar. Tryggvi Herbertsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Auk þeirra voru í nefndinni Huginn Freyr Þorsteinsson fyrir Vinstri græna og Jón Helgi Egilsson þá fulltrúi Hreyfingarinnar nú fulltrúi Framsóknarflokksins í bankaráði Seðlabanka Íslands. Engin laun voru greidd fyrir setu i nefndinni. 
Þetta varð til þess að hægja á gangi málsins, þegar eingöngu aðilar tengdir Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki voru kallaðir til starfa við losun haftanna. Síðan hafa málin mjakast áfram með nokkrum „flugeldasýningum“ og sjálfhælni í frásögnum af heimsmetum ríkisstjórnarninnar, þeim sem hentugast hefur þótt að guma af hverju sinni.

Nýjustu skrefin sem nú hafa loksins verið stigin til losunar gjaldeyrishafa eru þau skref sem næst verður komist að taka til afléttingar hafta á íslenskri krónu. Gera verður ráð fyrir að krónan verði um ókomna tíð í einhvers konar höftum enda er hún smæsta sjálfstæða mynt veraldar og aðeins til heimabrúks.

Enn eru stærstu viðfangsefnin um framtíð peningamála á Íslandi óleyst. Stærri fyrirtæki gera mörg hver reikninga sína upp í erlendri mynt en þjóðinni er gert að notast við gjaldmiðil sem er hvergi annars staðar gjaldgengur. Allir stjórnmálaflokkar nema þeir sem vilja kanna kosti og galla á upptöku evru skila auðu í þessum efnum og reyna að telja sjálfum sér og kjósendum sínum trú um að hægt verði að notast við íslenska krónu til frambúðar.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×