Innlent

Útlendingastofnun undirbýr opnun gistiskýlis fyrir hælisleitendur

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Skýlið verður staðsett á Krókhalsi, þar sem Lögregluskóli ríkisins var áður til húsa.
Skýlið verður staðsett á Krókhalsi, þar sem Lögregluskóli ríkisins var áður til húsa. Vísir/Stefán
Útlendingastofnun vinnur nú að því að opna gistiskýli fyrir hælisleitendur. Skýlið verður staðsett á Krókhálsi, þar sem Lögregluskóli ríkisins var áður til húsa.

Gistiskýlið verður fyrsti móttökustaður fyrir hælisleitendur sem koma til landsins án maka og barna. Gert er ráð fyrir að pláss verði fyrir allt að 75 manns. Þjónusta verður með öðru sniði en í öðrum búsetuúrræðum á vegum Útlendingastofnunar að því leytinu til að þeir sem dvelja þar verða einnig í fullu fæði.

Í tilkynningu frá Útlendingastofnun segir að mikill fjöldi hælisumsókna á haustmánuðum hafi haft það í för með sér að húsnæðisúrræði á vegum stofnunarinnar og samstarfsaðila hafi verið fullnýtt undanfarnar vikur. Útlendingastofnun veitir um 380 hælisleitendum þjónustu en af þeim dvelja nú um 140 einstaklingar á hótelum og gistiheimilum. Með opnun gistiskýlisins á Krókhálsi er ætlunin að draga úr þeim fjölda sem þar dvelur en stofnunin vinnur jafnframt að öflun fleiri úrræða.

Í septembermánuði sóttu 177 einstaklingar um hæli, sem eru fleiri en í nokkrum öðrum mánuði til þessa. Heildarfjöldi hælisumsókna á fyrstu níu mánuðum ársins er þar með orðinn 561 og er það metfjöldi. 65% umsækjenda komu frá Albaníu og Makedóníu. Til samanburðar sóttu 172 um hæli allt árið 2013 og 176 allt árið 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×