Skoðun

Metum kennara að verðleikum – styrkjum stöðu þeirra!

Þórður Á. Hjaltested og Aðalheiður Steingrímsdóttir skrifar
Alþjóðadagur kennara hefur verið haldinn hátíðlegur um árabil. Þann dag vekja Alþjóðasamtök kennara og milljónir kennara um allan heim athygli á kennarastarfinu og gera kröfur um umbætur í menntamálum. Yfirskrift dagsins í ár er metum kennara að verðleikum – styrkjum stöðu þeirra.

Það er réttur allra að hafa greiðan aðgang að góðri og fjölbreyttri menntun, óháð þörfum, efnahag og uppruna. Til að þetta sé hægt þurfum við góða kennara í öllum skólum og á öllum skólastigum. Góður kennari er mikill áhrifavaldur í lífi og menntun barna og ungmenna. Kennarinn er margt í senn, fræðari, leiðsögumaður, leiðtogi, vinur og félagi. Hann þarf að sinna mörgum mismunandi hlutverkum, vera úrræðagóður og sveigjanlegur svo að kennslan og skólastarfið sé lifandi og merkingarbært og geri gagn til framtíðar fyrir börn og ungmenni og samfélagið. Kennarar þurfa stöðugt að fylgjast með og þróa sig í starfi. Þeir þurfa að aðlaga sig að síbreytilegum kröfum úr öllum áttum, frá nemendum, foreldrum og samfélaginu.

Til að þetta megi verða þarf kennarastarfið að njóta virðingar í samfélaginu og það viðurkennt sem eitt af lykilstörfum. Án góðrar menntunar á samfélagið sér ekki bjarta framtíð. Það hefur skaðleg áhrif að tala menntun og menntakerfið niður. Samfélagið þarf að bera virðingu fyrir menntun, sýna henni áhuga og styðja á alla lund. Mannauðurinn er lykill að farsæld í flóknu nútímalífi og verður sífellt mikilvægari þegar til framtíðar er litið. Án góðra kennara tekst okkur ekki að vera í fremstu röð í samfélagi þjóðanna.

Kennarar á Íslandi hafa lengi þurft að fara í hörð átök með reglulegu millibili til að laga launastöðuna miðað við kjör hópa á opinberum vinnumarkaði með sambærilega menntun. Og við blasir brýn þörf fyrir stóraukna nýliðun í kennslu. Samfélagið þarf að sýna í verki að það meti kennarastarfið að verðleikum með því að styrkja stöðu kennara og búa vel að stéttinni til að sinna mikilvægu starfi, með hvetjandi og skapandi starfsumhverfi og samkeppnishæfum launum.

Það þurfa allir að standa saman um þetta verkefni, foreldrar, kennarar, fjölmiðlar, almenningur og stjórnvöld. Að standa með kennurum og meta þá að verðleikum skilar sér margfalt. Að standa með kennurum og meta þá að verðleikum skilar sér aukinni nýliðun í kennslu og þar með öflugra menntakerfi og menntun. Að standa með kennurum og meta þá að verðleikum skilar sér ekki síst í betra samfélagi fyrir börn og ungmenni þar sem jafnræði og lýðræði er haft að leiðarljósi.

Kæru kennarar – til hamingju með kennaradaginn!

 




Skoðun

Skoðun

49 ár

Bryndís Guðmundsdóttir,Helga Björg O. Ragnarsdóttir,María Björk Lárusdóttir,Rósa Björk Bergþórsdóttir skrifar

Sjá meira


×