Innlent

Kæra Bakkalínur til ESA

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það er mat samtakanna að slík lög væru brot á rétti umhverfisverndarsamtaka til að bera ákvarðanir stjórnvalda undir dómstól.
Það er mat samtakanna að slík lög væru brot á rétti umhverfisverndarsamtaka til að bera ákvarðanir stjórnvalda undir dómstól. fréttablaðið/anton
Náttúruverndarsamtökin Fjöregg í Mývatnssveit og Landvernd hafa kært fyrirhugaða lagasetningu um Bakkalínur til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála stöðvaði framkvæmdir við lagningu háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að kísilverksmiðju þýska fyrirtæksins CCP á Bakka fyrir nokkrum vikum að kröfu Landverndar á grundvelli náttúruverndarlaga frá árinu 2015. Nefndin leggst ekki gegn framkvæmdinni en áskilur sér rétt til að fara yfir forsendur framkvæmdanna vegna kæru Landverndar sem telur að háspennulínurnar muni valda tjóni á vernduðu hrauni.

Skömmu síðar samþykkti ríkisstjórnin á sérstökum aukafundi að leggja fram frumvarp um lagningu háspennulína frá Þeistareykjum og Kröflu að Bakka Sem veitir Landsneti framkvæmdaleyfi með lögum og heimild til að reisa línurnar sem um ræðir. Er frumvarpið nú til umræðu á þingi.

Í tilkynningu frá Landvernd og Fjöreggi segir að það sé mat samtakanna að slík lög væru brot á rétti umhverfisverndarsamtaka til að bera ákvarðanir stjórnvalda undir dómstól eða annan óháðan og sjálfstæðan úrskurðaraðila.

„Við ákváðum að leita strax til ESA með þetta mál og höfum fengið það staðfest að þau muni skoða málið ef og þá um leið og lögin yrðu samþykkt af Alþingi“, er haft eftir Ólafi Þresti Stefánssyni, formanni Fjöreggs í Mývatnssveit í tilkynningu frá samtökunum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar segir að samtökin séu einnig að kanna möguleikann á því að kvarta til eftirlitsnefndar Árósasamningsins og að senda kæru til Mannréttindadómstóls Evrópu verði frumvarpið samþykkt. Vísar hann til umsagnar hollenska lagaprófessorsins Kees Bastmeijer um lögin til atvinnuveganefndar Alþingis þar sem hann segir líklegt að lögin fari gegn ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð.

„Sú staðreynd að líklega eru bara ein til tvær vikur í úrskurð sýna einbeittan brotavilja stjórnvalda gegn náttúruvernd og umhverfisverndarsamtökum í landinu. Á sama tíma þegja þunnu hljóði þau yfirvöld sem bera ábyrgð á framfylgd umhverfis- og náttúruverndarlaga í landinu, þ.e.a.s. umhverfisráðuneytið og undirstofnanir þess“, segir Guðmundur Ingi. 


Tengdar fréttir

Landvernd fer fram á nýtt umhverfismat

Landvernd ítrekar fyrri afstöðu sína um að umhverfismeta beri fleiri valkosti en loftlínu frá Kröflu að Bakka svo draga megi úr umhverfisáhrifum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×