Innlent

Jarðvísindamenn geta litlu spáð um framhaldið í Kötlu

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Rólegt hefur verið á Kötlusvæðinu síðustu tvo sólarhringa en aðeins nokkrir smáskjálftar hafa mælst í nótt og í dag. Enginn gosórói hefur heldur mælst á svæðinu og eftir athugun jarðvísindamanna á sigkötlum jökulsins í gær sýndu þær engar markverðar breytingar. Sú mikla virkni sem var á svæðinu á föstudag virðist heldur ekki hafa skila auknu rennsli jarðhitavatns í ám í kringum Mýrdalsjökul en viðbúnaðarstig vegna hugsanlegs eldgos var hækkað upp í gult fyrir helgi.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra tók ákvörðun um það í gærkvöldi að áfram yrði vegurinn að Sólheimajökli lokaður að minnsta kosti til morguns og að auki yrði áfram bannað að fara í jökulgöngur á svæðinu. Í tilkynningunni segir jafnframt að mælst sé til þess að ekki sé dvalið á víðavangi yfir nóttu allt frá Skógum að Dyrhólavegi og frá útjaðri Víkurþorps í austri að Kúðafljóti. Er þetta gert til að auðvelda viðbragðsaðilum ef til rýmingar kæmi á svæðinu.

Vísindaráð almannavarna mun koma saman í samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð á morgun og meta aðstæður við Kötlu á ný en engir stórir skjálftar yfir 3 að stærð hafa mælst síðan á föstudag.

„Þessi hrina sem byrjaði á fimmtudaginn og rann svo út í gær var það mikil og óvenjuleg að hún líktist mjög mikið því sem verður þegar eldgos er að fara af stað svo það er full ástæða til að vera vakandi áfram. Veðurstofan er með öflugt jarðskjálftamælanet og var að bæta við mælum og síðan voru Veðurstofan og Jarðvísindastofnun að koma upp GPS-tækjum til viðbótar til þess að sjá betur allar hreyfingar. Það eru ekki komnar neinar nýjar upplýsingar sem skipta máli úr þessum kerfum ennþá vegna þess að eftir að þau voru sett upp síðdegis í gær þá hefur virknin verið mjög lítil. Það þýðir að minnsta kosti enn sem komið er að það er engin aukin jarðhitavirkni eða skyndileg aukning í því sem myndi þýða aukna bráðnun og gæti þýtt aukna vatnssöfnun eða hlaup eins og kom árið 2011. Við sjáum engin merki um það, að minnsta kosti ekki ennþá,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson prófessor í jarðeðlisfræði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×