Innlent

Deildu-dómurinn: Segir héraðsdóm hafa tekið undir „tilgangsleysi og skaðsemi“ lögbannsins

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lokað var á síðurnar Deildu.net og Piratebay árið 2014.
Lokað var á síðurnar Deildu.net og Piratebay árið 2014. Vísir
„Dómurinn tekur undir sjónarmið Símafélagsins um að tæknileg útfærsla lögbannsins, með svokallaðri DNS-lokun, geti aukið kostnað notenda, minnkað gæði netþjónustunnar og sé í eðli sínu hálf tilgangslaus ráðstöfun,“ segir Brjánn Jónsson, framkvæmdastjóri Símafélagsins um staðfestingu Héraðsdóms Reykjavíkur á lögbanni á fjarskiptafélögin Símafélagið og Hringiðuna við því að veita netaðgengi að vefsvæðunum Deildu.net og Pirate Bay.

Héraðsdómur Reykjavíkur fyrirskipaði sambærilegt lögbann á stærstu netþjónustufyrirtæki landsins í október 2014. Símafélagið og Hringiðan fylgdu því fordæmi ekki. Brjánn segir að Héraðsdómur hafi komist að mótsagnarkenndri niðurstöðu í málinu. Þá hafi dómurinn tekið undir meginsjónarmið Símafélagsins um tilgangsleysi og skaðsemi lögbannsins.

Sjá einnig: Lögbann á Deildu.net og Pirate Bay staðfest

„Dómurinn gengur síðan enn lengra í sínu eigin mati og segir að DNS-lokun sé skammtímalausn sem sé ósamrýmanleg þróun öryggismála á netinu og fari gegn heildarbyggingu þess. Þrátt fyrir þetta mat kemst dómurinn að þeirri mótsagnakenndu niðurstöðu að lögbannið sé ekki tilgangslaust með öllu og að DNS-lokun sé minnst íþyngjandi útfærslan á lögbanninu fyrir fjarskiptafyrirtæki og viðskiptavini þeirra af þeim aðferðum sem koma til greina," segir Brjánn.“

DNS stendur fyrir Domain Name System. Með tilkomu þess breyttist fyrst og fremst viðmót gagnvart nöfnum vefsetra þannig að nú má skrifa nafn vefseturs, í stað IP-tölu vefsetursins. DNS-þjónn sér um að tengja nafnið við rétta IP-tölu. Með lögbanninu er netþjónustufyrirtækjum skipað að að vísa notendum sem ætla sér að komast inn á umræddar vefsíður inn á rangt vefsvæði þar sem melding um lögbannið kemur upp.

Sjá einnig: Segja niðurstöðu Deildu-dómsins óskiljanlega

Brjánn segir að mikilvægt sé að fá æðra dómstig til að fjalla um málið en kostnaður þess sé líklega of mikill fyrir Símafélagið, óvíst sé því um framhald málsins. Telur hann að STEF, sem barist hefur fyrir lögbanninnu, sé á villigötum í málinu.

„Það er mjög mikilvægt að það komi fram að Símafélagið styður STEF heilshugar í baráttu sinni gegn ólöglegri dreifingu höfundarréttarvarins efnis. Við teljum STEF einfaldlega vera á villigötum. Má þar nefna tilgangsleysi aðgerðanna, ógn við öryggi internetsins ásamt þeirri ritskoðun sem lögbannið felur í sér.”


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×