Skoðun

Skattþrepin óteljandi

Katrín Atladóttir skrifar
Skattkerfið er ætlað til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Það á að vera einfalt, gagnsætt, sanngjarnt og skilvirkt. Þrepaskipt tekjuskattkerfi uppfyllir engin þessara skilyrða. Það er flókið, ógagnsætt, ósanngjarnt og óskilvirkt.

Þrepaskipting skatta eykur ósanngirni skattkerfisins þar sem sífellt meira er dregið af tekjum eftir því sem þær aukast.

Misjöfn skattþrep eru óþörf

Persónuafsláttur er skattaafsláttur sem er ávallt sama upphæð, óháð tekjum. Tekjuskattur skiptist í þrjú mishá þrep og miðast við upphæð tekna.

Misjöfn skattþrep eru í raun óþörf. Persónuafsláttur gerir skattþrepin óendanlega mörg jafnvel þó þrepaskipting skatta væri aflögð.

Gerum ráð fyrir einu skattþrepi auk hámarks útsvars, 37,2%. Kona með 300 þúsund krónur í mánaðarlaun greiðir þá 20% skatt eftir að persónuafsláttur hefur verið dreginn frá. Sé hún með 400 þúsund verður skatturinn 24% en 27% af 500 þúsund króna tekjum. Skattprósentan hækkar um heil sjö prósentustig meðan heildarlaun hækka um 200 þúsund krónur.

Skattaprósentan mun því áfram hækka í þrepum eftir því sem tekjur hækka, þrátt fyrir að skattþrepin sjálf séu aflögð.

Eitt þrep sanngjarnt

Sú sem aflar hærri tekna er ekki einungis að leggja til fleiri krónur heldur er skattprósenta hennar einnig hærri.

Færri skattþrep draga úr ósanngirni skattkerfisins, draga úr því að sífellt sé tekið meira úr launaumslaginu eftir því sem meira er aflað og gefa þannig aukinn hvata til þess að draga björg í bú.

Tekjuskattskerfi með einu þrepi er einnig gagnsærra, skilvirkara og ódýrara í rekstri fyrir hið opinbera.

Um áramótin mun miðþrep tekjuskattsins falla niður. Enn má þó gera betur. Við erum á réttri leið.



Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×