Erlent

Þriggja sólarhringa vopnahlé tekur gildi í Jemen

Atli Ísleifsson skrifar
Um þrjár milljónir manna hafa neyðst til að leggja á flótta í Jemen.
Um þrjár milljónir manna hafa neyðst til að leggja á flótta í Jemen. Vísir/AFP
Abd Rabbu Mansour Hadi, forseti Jemen, hefur samþykkt tillögu um að þriggja sólarhringa vopnahlé taki gildi í landinu, með möguleika á framlengingu.

Abdel-Malek al-Mekhlafi, utanríkisráðherra Jemen, greinir frá þessu á Twitter-síðu sinni.

„Forsetinn samþykkir 72 klukkustunda vopnahlé með möguleika á framlengingu, leggi mótaðilinn einnig niður vopn,“ segir al-Mekhlafi.

Bandarísk og bresk stjórnvöld, ásamt fulltrúum Sameinuðu þjóðanna, hafa að undanförnu þrýst á að samið verði um tafarlaust vopnahlé í hinu stríðshrjáða landi, þar sem Hútar, sem njóta stuðnings Írana, og jemenska ríkisstjórnin, sem nýtur stuðnings Sáda, hafa átt í átökum.

Sameinuðu þjóðirnar áætla að nærri 6.900 manns hafi fallið og rúmlega 35 þúsund særst í átökum í landinu frá því að þau brutust út í mars á síðasta ári.

Um þrjár milljónir manna hafa neyðst til að leggja á flótta.


Tengdar fréttir

Gerðu árásir í Jemen í fyrsta sinn

Bandaríkin skutu eldflaugum á þrjár ratsjárstöðvar í landinu eftir að eldflaugum hafði verið skotið að bandarísku herskipi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×