Sjómenn samþykktu að grípa til verkfallsaðgerða fyrr í dag. Aðgerðirnar voru samþykktar með 90% atkvæða. Þátttaka verkalýðsfélaga Sjómannasambands Íslands var um 56% að meðaltali en 17 af 18 þeirra samþykktu aðgerðirnar.
Verkfall mun hefjast klukkan 23:00 þann 10. nóvember ef ekki tekst að semja fyrir þann tíma. Samkvæmt Valmundi Valmundssyni, formanni Sjómannasambands Íslands, er um allsherjar vinnustöðvun að ræða.
Aðspurður um hvort sjómenn séu bjartsýnir um að samningar náist áður en gripið verður til aðgerða segir Valmundur að svo sé en að sjómenn séu þó klárir í aðgerðir. „Baklandið okkar er klárt í aðgerðir og það hlýtur að þrýsta á að menn fái að tala saman að einhverju viti. Nú liggur afstaða sjómanna klár fyrir og þeir eru tilbúnir í hörkuna ef ekki næst að semja,“ segir hann.
Sjómenn hafa verið samningslausir í um það bil sex ár en kröfur þeirra snúa meðal annars að verðlagsmálum á sjávarafurðum og mönnunarmálum um borð.
Sjá einnig: Sjómenn samþykkja undirbúning verkfallsaðgerða: „Verður fylgt eftir af fullri hörku“
Sjómenn fóru síðast í verkfall fyrir tæpum sextán árum en þá voru lög sett á verkfallið í kjölfar úrskurðar Gerðardóms.
