Innlent

Tæpt ár frá hryðjuverkunum í París

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Yfirmaður lækna- og bráðateymis sem starfaði á vettvangi hryðjuverkanna í París á síðasta ári segir að erfitt hafi verið að trúa því að stríð væri í raun skollið á í Frakklandi og í dag megi alltaf búast við annarri hryðjuverkaárás. Ellefu mánuðir eru liðnir frá því að mannskæð hryðjuverk voru framin þar á nokkrum stöðum í borginni samtímis.

Þess var minnst í dag að þrír mánuðir eru liðnir síðan hryðjuverkamaður ók vörubíl á gangandi vegfarendur í Nice í Frakklandi.

Að kvöldi 13. nóvember á síðasta ári hófst röð hryðjuverkaárása í París þar sem hryðjuverkamenn réðust á vegfarendur og íbúa borgarinnar á mismunandi stöðum samtímis með skot- og sprengjuárásum, meðal annars við Stade de France íþróttaleikvanginn í Norður-París.

Tuttugu og eitt bráðateymi frá slökkvi- og björgunarliði Parísar komu að björgun mannslífa við hörmulegar aðstæður en um 130 manns létust í árásunum og um 400 særðust.

Jean-Pierre Tourtier, yfirmaður læknateymis Parísar, kom að björgunaraðgerðum meðal annars við Bataclan-leikhúsið þar sem mannskæðasta árásin átti sér stað.

„Ég skildi þegar í stað að þetta var grimmilegt kvöld því það barst útkall vegna sprengingar á leikvanginum í norðurhluta Parísar og skothríðar annars staðar í París. Það er erfitt fyrir hermann eins og mig að sætta sig við að það geisi stríð í París,“ sagði Jean-Pierre Tourtier, yfirmaður læknateymis Parísar.

Bráðateymið sem Jean stýrði starfaði í hringiðu árásanna og reyndi að sinna særðum en lögreglumenn á staðnum reyndu að veita þeim skjól frá skotum sem virtust koma úr öllum áttum.

„Þetta var eins og hjá hermönnum í Afganistan. Það voru sprengingar og mikil skothríð.  Þetta var eins og stríð,“ sagði Jean.

Jean segir að þrátt fyrir alvarleika atburðanna sem stóðu yfir hafi verið óvenju mikil þögn legið yfir þeim stöðum þar sem árásirnar áttu sér stað.

„Þegar maður er læknir eða hjúkrunarfræðingur hugsar maður bara um eitt þegar maður kemur á staðinn, að huga að hinum særðu,“ segir Jean.

Varstu hræddur?

„Nei, merkilegt nokk, ég hugsaði bara um vinnuna,“ segir JeanJean er staddur hér á landi og í gær flutti hann fyrirlestur á alþjóðaráðstefnu Slysavarnafélagsins Landsbjargar þar sem hann miðlaði af reynslu sinni og ræddi meðal annars samanburð á milli aðgerða í náttúruhamförum og hryðjuverkaárásum.„Þegar um náttúruhamfarir er að ræða verður maður að takast á við náttúruna. Þegar það eru menn sem vilja drepa fólk verður maður að takast á við skyni gæddar verur. Það er öðruvísi,“ segir Jean

Á eftir, þegar allt var yfirstaðið, hvernig var að snúa aftur og hugsa um það sem gerðist?

„Ég horfi ekki um öxl, ég hugsa um framtíðina. Ég held að það verði önnur árás,“ segir Jean

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×