Erlent

Kardínálar verulega pirraðir vegna fyrsta McDonalds Vatíkansins

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kardínálar vilja ekki McDonalds.
Kardínálar vilja ekki McDonalds.
Andstæðingar þess að skyndibitakeðjan McDonalds opni sinn fyrsta skyndibitastað í Vatíkaninu hafa fengið liðsstyrk. Kardínálar sem búa fyrir ofan fyrirhugaða staðsetningu McDonalds eru ekki sáttir við fyrirætlanir bandarísku skyndibitakeðjunnar.

Í sumar ákvað APSA, stofnun Vatíkansins sem sér um eignir þess, að leigja McDonalds rými í húsi í eign Vatikansins skammt frá Péturstorgi. Á vef Guardian kemur fram að íbúar Vatíkansins, einu minnsta ríki heimsins, séu ekki par hrifnir af áætlunum McDonalds. Þá sérstaklega kardínálarnir sem búa fyrir ofan hinn fyrirhugaða McDonalds-stað.

Hafa þeir miklar áhyggjur af því að þeir þurfi að greiða fyrir breytingar á íbúðum sínum sem gera þarf vegna komu McDonalds. Hafa þeir kvartað til APSA í von um að hætt verði við komu McDonalds.

Íbúasamtök í hverfinu segja að ekki megi leyfa McDonalds að opna í Vatíkaninu, þar sé nú þegar allt of mikið af verslunum sem selji allskonar glingur.

APSA segir að McDonalds hafi boðist til þess að greiða mun hærri leigu en aðrir áhugasamir leigjendur. Segir talsmaður þess að kardínálarnir þurfi ekki að hafa áhyggjur vegna komu McDonalds.

Stefnir því allt í að innan skamms geti Frans páfi gætt sér á einum Bic Mac hamborgara, hafi hann á annað borð áhuga á því en híbýli páfans eru skammt frá fyrirhuguðum McDonalds-stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×