Oddvitar Íslensku þjóðfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur, Gústaf Níelsson og Gunnlaugur Ingvarsson, hafa dregið framboð sín til baka. Þeir segjast ekki ætla fram fyrir flokkinn á meðan forysta hans sé í höndum Helga Helgasonar, formanns flokksins.
„Hann hefur sýnt það að hann hefur ekki áhuga á framgangi flokksins. Hann vill útiloka fólk frá starfi í flokknum sem honum þóknast ekki. Hann hefur ekki stjórn á flokknum og forystuhæfileikar hans eru því miður ekki fyrir hendi. Svona ungt stjórnmálaafl þarf á sterkri forystu að halda,“ segir Gunnlaugur í samtali við Vísi.
Gunnlaugur segir þá Gústaf þó ekki hætta í stjórnmálum. „Þetta þýðir ekki það að okkar afl, okkar sterka afl sem á eftir að verða mun sterkara í framtíðinni og á fullt erindi við íslensku þjóðarinnar, muni koma fram,“ segir hann. Þeir muni bjóða sig fram í næstu borgarstjórnarkosningum, en veit ekki hvort það verði undir formerkjum Íslensku þjóðfylkingarinnar.
„Við þurfum að stöðva að hér verði byggð moska íslamista í Sogamýrinni og við munum gera það.“
Þá segir Gunnlaugur þetta mikið áfall, enda hafi þeir tveir með góðri aðstoð dyggra stuðningsmanna lagt ómælda vinnu í kosningabaráttuna. Hann veit ekki hver næstu skref innan flokksins verða.
„Þetta er áfall fyrir flokkinn og okkur sem höfum verið að standa í þessu. Kannski kemur flokkurinn fram listum eftir þetta, ég skal ekkert um það segja.“
Innlent