Erlent

Segir sjálfsvíg grunaðs hryðjuverkamanns vera réttarfarslegt hneyksli

Atli Ísleifsson skrifar
Jaber al-Bakr fannst látinn í klefa sínum í gær.
Jaber al-Bakr fannst látinn í klefa sínum í gær. Vísir/AFP
Lögmaður sýrlensks flóttamanns í Þýskalandi, sem fyrirfór sér í fangelsi í Leipzig á miðvikudag, segir að dauði skjólstæðings síns sé réttarfarlegt hneyksli.

BBC segir frá þessu. Hinn 22 ára Jaber al-Bakr var handtekinn á mánudag vegna gruns um að hann væri að skipuleggja sprengjuárás á flugvelli í Berlín.

Al-Bakr svipti sig lífi í fangaklefa sínum þar sem hann notaðist við skyrtu sína til að kyrkja sjálfan sig. Þýsk yfirvöld hafa farið fram á tafarlausa rannsókn, en lögmaður al-Bakr segir að starfsmönnum fangelsisins hafi verið vel kunnugt um að hann væri í sjálfsvígshættu.

Lögregla í Þýskalandi gerði húsleit í íbúð mannsins í borginni Chemnitz í austurhluta Þýskalands á laugardag þar sem mikið magn sprengiefnis fannst.

Sebastian Gemkow, dómsmálaráðherra Saxlands, segir að sálfræðimat hafi verið framkvæmt á manninum og gripið til viðeigandi ráðstafana. Fangelsismálastjórinn hafi auk þess lýst Bakr sem rólegum og í jafnvægi.

„Þetta hefði ekki átt að gerast, en það gerðist,“ sagði Gemkow sem segist taka ábyrgð á málinu. Hann segist þó ekki munu segja af sér.

Að sögn litu fangaverðir til Bakr á þrjátíu mínútna fresti á meðan hann dvaldi í klefa sínum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×