Erlent

Taílandskonungur alvarlega veikur

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Konur bíða fyrir utan sjúkrahúsið þar sem Taílandskonungur er sagður berjast fyrir lífi sínu	.
Konur bíða fyrir utan sjúkrahúsið þar sem Taílandskonungur er sagður berjast fyrir lífi sínu . Nordicphotos/AFP
Bhumibol Aduljadei, hinn 88 ára gamli konungur Taílands, hefur verið alvarlega veikur undanfarið og eru Taílendingar farnir að búa sig undir dauða hans.

Hann hefur verið konungur síðan 1946, eða í heil sjötíu ár, lengur en nokkur annar núlifandi þjóðhöfðingi í veröldinni.

Fyrir nokkrum dögum var í fyrsta sinn skýrt frá því opinberlega að konungurinn hefði verið á sjúkrahúsi meira eða minna allt árið. Á laugardaginn þurfti hann að fara í blóðskilun vegna nýrnabilunar.

Upplýsingar frá konungshöllinni eru samt enn af skornum skammti þannig að hvorki almenningur né fjölmiðlar vita mikið um raunverulegt heilsufarsástand konungsins.

Konungurinn nýtur mikilla vinsælda í Taílandi og þar varðar hreinlega við lög að hallmæla honum. Hann hefur með vissum hætti tryggt stöðugleika í landinu alla sína löngu stjórnartíð þrátt fyrir tíðar byltingar og ólgu í stjórnmálum.

Arftaki hans verður sonur hans, krónprinsinn Maha Vajiralongkorn, sem er 64 ára gamall en nýtur engan veginn sömu vinsælda og faðir hans. Hann þykir frekar óútreiknanlegur.

Einhverjir vonast til þess að Bhumibol konungur hafi séð til þess að í stað krónprinsins muni Sirindhorn, dóttir konungsins og systir prinsins, taka við.

Sá núlifandi þjóðhöfðingi, sem kemst næst Bhumibol Taílandskonungi hvað varðar lengd valdatíma, er Elísabet Bretadrottning sem tók við völdum árið 1952. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×