Erlent

Pundið léttist einnig í fiskiskammti Breta

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Fish and Chips staðir eru hvattir til að minnka skammtastærðir til að berjast gegn offitu.
Fish and Chips staðir eru hvattir til að minnka skammtastærðir til að berjast gegn offitu. Vísir/Getty
Samfélag Bretar ætla skera upp herör gegn offitu þjóðarinnar og hafa hvatt veitingastaði til að minnka skammtana af hinum eina sanna Fish and Chips.

Í fyrra hvöttu bresk stjórnvöld veitingastaði meðal annars til að fela saltstaukana og nú verður hægt að fá minni skammta af þessum einfalda en eftirsótta rétti. Þá verður hægt að fá salat og steikingarolíunni verður breytt. Meðalstærð á skammti er um 450 grömm en áætlanir gera ráð fyrir að skammturinn fari í 283 grömm. Mun verðið vera í kringum pundið eða 140 krónur.

Íslendingar selja gríðarlega mikinn fisk til Englands þar sem hann er undirstaðan í þessum eftirlætisskyndibita Breta. Karen Kjartansdóttir, hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, segir að vel matreiddur fiskur sé hitaeiningasnauð og holl matvara.

Karen Kjartansdóttir
„Við getum vel tekið undir mikilvægi þess að minnka skammtastærðir til að draga úr sóun enda talsmenn ábyrgrar nýtingar á auðlindum. Að leifa mat þykir ekki góður siður enda er með því verið að sóa fjármunum og auðlindum jarðar,“ segir Karen.

Hins vegar kveðst Karen viðurkenna að hún telji nokkurt óráð að draga úr fiskneyslu til að bæta heilsufar fólks, ekki síst þegar rætt sé um okkar „villta og heilnæma“ fisk úr Atlantshafinu. „Mínar ráðleggingar í þessum málum eru því frekar þær að minnka skammtinn af frönskunum auk þess sem ég tek undir tillögur um að bæta matreiðsluaðferðir og nota betri olíu við steikingu,“ segir hún.

Karen bætir því við að þegar kemur að mat séu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi talsmenn gæða fremur en magns.

„Vitanlega finna útflytjendur fyrir því að pundið hefur fallið, sem er bagalegt fyrir íslenskan efnahag. Í raun sjáum við bara tækifæri í aukinni áherslu á heilsu og hollustu í Bretlandi enda fiskur mikil hollustuvara,“ segir Karen. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×