Skoðun

Stærsta kosningaloforðið svikið!

Björgvin Guðmundsson skrifar
Stjórnarflokkarnir hafa enn ekki efnt stærsta kosningaloforðið, sem þeir gáfu öldruðum og öryrkjum fyrir kosningarnar 2013 nú þegar komið er að kosningum 2016. Hvað var stærsta kosningaloforðið? Jú, báðir stjórnarflokkarnir lofuðu að leiðrétta lífeyri aldraðra vegna kjaragliðnunar krepputímans. Til þess að standa við þetta loforð þarf að hækka lífeyrinn um 23% eða um 56.580 kr. á mánuði fyrir skatt.

Það er athyglisvert, að þessi hækkun, efndir á þessu loforði, er nákvæmlega sú hækkun, sem ríkisstjórnin lofar nú að komi til framkvæmda árið 2018. Samkvæmt kosningaloforðinu á hún að koma til framkvæmda strax og í rauninni átti hún að koma til framkvæmda strax eftir kosningar 2013 sbr. loforð Sjálfstæðisflokksins. Þessi dráttur á framkvæmd loforðsins hefur kostað aldraða og öryrkja tugi milljarða kr.

Allt bendir til þess, að það hafi aldrei verið ætlun Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins að efna þetta stóra kosningaloforð. Svo virðist sem það hafi átt að blekkja kjósendur. Engin leið er að vita hvað margir kusu stjórnarflokkana út á þetta loforð. Þeir geta verið margir. Ef til vill hefur þetta loforð komið stjórnarflokkunum til valda. Athyglis­vert er, að stjórnarflokkarnir hafa aldrei minnst á þetta loforð eftir að þeir komust til valda.

En stjórnarflokkarnir gáfu fleiri loforð fyrir kosningar 2013. Þeir lofuðu að afturkalla alla kjaraskerðingu aldraðra og öryrkja frá árinu 2009. Þar var um 6 atriði að ræða. 3 voru afturkölluð en hin 3 hafa ekki verið afturkölluð enn.

Auk þess gaf Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, mjög stórt kosningaloforð til aldraðra. Hann lofaði að afnema allar tekjutengingar lífeyris aldraðra hjá almannatryggingum. Hann hefur ekki staðið við það.

Ríkisstjórnin leiðrétti útreikning grunnlífeyris en fyrri ríkisstjórn hafði skert hann hjá þeim, sem höfðu mjög háan lífeyri úr lífeyrissjóði. Grunnlífeyrir féll niður hjá þeim, sem voru með 332 þúsund kr. og meira á mánuði úr lífeyrissjóði. Þetta var fært til fyrra horfs. Það hrökk skammt til þess að afnema tekjutengingar vegna lífeyris aldraðra. Skerðingar lífeyris voru einnig miklar vegna atvinnutekna og fjármagnstekna. Samkvæmt loforðinu átti af afnema allar skerðingar. Það loforð var ekki uppfyllt.

Ný lög um almannatryggingar, sem samþykkt voru á Alþingi, veita hvergi nærri nægar kjarabætur. Aldraðir í hjónabandi, sem eingöngu hafa lífeyri frá TR, eiga að fá 195 þúsund á mánuði eftir skatt 2017. Þetta er svo lágt, að það er til skammar. Einhleypir eldri borgarar í sömu stöðu eiga að fá 227 þúsund kr. á mánuði eftir skatt; einnig skammarlega lágt. En ríkisstjórnin taldi þetta gífurlega mikla hækkun!

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×