Innlent

Þingvallanefnd vill nýta forkaupsréttinn

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Af fundi Þingvallanefndar í gær.
Af fundi Þingvallanefndar í gær. vísir/eyþór
Þingvallanefnd hefur ákveðið að lýsa yfir vilja sínum til að nýta forkaupsrétt á Valhallarstíg nyrðri 7 við Þingvallavatn. Nefndin ályktar þó að nauðsynlegt sé að skoða frekari annmarka á málinu. Á Valhallarstíg nyrðri 7 stendur grunnur að sumarbústað og er eignin metin á um 85 milljónir króna.

„Nefndin ákvað að lýsa yfir vilja til þess að nýta forkaupsréttinn og ætlar að óska eftir því að forsætisráðuneytið skoði feril málsins og möguleika á fjármögnun á kaupum,“ segir Róbert Marshall, fulltrúi Bjartrar framtíðar í nefndinni, en ákvörðunin var tekin á fundi nefndarinnar í gær.

Í Fréttablaði gærdagsins kom fram að óvissa væri um nýtingu forkaupsréttar. Sagði Róbert þá að meirihluti nefndarinnar hefði áður ákveðið að nýta forkaupsréttinn ekki.

Sigrún Magnúsdóttir, formaður nefndarinnar og umhverfisráðherra, sagði í samtali við fréttastofu í gær að grundvöllur fyrri ákvörðunar um að nýta réttinn ekki hafi verið sá að fjárveiting var ekki fyrir hendi. Hún sagðist jafnframt kát með það að einhugur hafi verið um að lýsa yfir vilja um nýtingu forkaupsréttar. Sérstaklega í ljósi þess að fundurinn var síðasti fundur nefndarinnar.

Róbert Marshall kveðst einnig ánægður með niðurstöðuna. „Ég er himinlifandi með þetta og mjög ánægður með að meirihlutinn hafi ákveðið að skoða málið betur og sé tilbúinn til þess að endurskoða fyrri ákvörðun sína,“ segir hann. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

Grunnurinn er við Valhallarstíg nyrðri 7.vísir/pjetur



Fleiri fréttir

Sjá meira


×