Erlent

Frakkar rýma búðirnar í Calais

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Flóttafólk í Calais á leið í rúturnar, sem flytja fólkið til .
Flóttafólk í Calais á leið í rúturnar, sem flytja fólkið til . Nordicphotos/AFP
Frönsk stjórnvöld hófust handa í gærmorgun við að rýma flóttamannabúðirnar við Calais, skammt frá syðri enda Ermar­sunds­ganganna. Meira en þúsund lögreglumenn voru kallaðir til verksins.

Á þriðja þúsund flóttamanna voru flutt þaðan í gær með rútum, en búið var að úthluta 7.500 manns húsaskjóli í flóttamannabúðum á samtals um 450 stöðum víðs vegar um Frakkland.

Um 1.300 þeirra eru á barnsaldri, yngri en 18 ára, en ein síns liðs. Frönsk stjórnvöld hafa undanfarið staðið í samningaviðræðum við Breta um að taka við þessum börnum, þar sem mörg þeirra eiga ættingja sem búa í Bretlandi og vilja af þeim sökum komast þangað.

Þau eiga mörg hver lagalegan rétt á því að komast til ættingja sinna í Bretlandi og fá þar hæli, en bresk stjórnvöld hafa verið treg til að taka við þeim. Samkomulag náðist þó á endanum um að þau fái flest að fara til Bretlands.

Brottflutningarnir virtust ganga vel fyrir sig, framan af í það minnsta. Flóttafólkið fylgdi fyrirmælum lögreglu, beið í biðröðum og fór um borð í rúturnar eins og fyrir var lagt.

Um helgina brutust hins vegar út átök þar í búðunum milli lögreglu annars vegar og flóttafólks og mótmælenda hins vegar, sem voru að mótmæla fyrirhugaðri lokun búðanna. Lögreglan beitti þá táragasi gegn mótmælendum, sem köstuðu grjóti í lögregluna.

Mannréttindasamtök á borð við Amnesty International hafa fylgst grannt með aðgerðum lögreglunnar, beinlínis í þeim tilgangi að draga úr líkunum á lögregluofbeldi.

Um sjö þúsund manns hafa búið í búðunum undanfarið, samkvæmt opinberum tölum, en hjálparsamtök segja íbúana hafa verið rúmlega átta þúsund.

Þangað hefur safnast fólk sem reynir að komast um Ermarsunds­göngin til Bretlands. Vöruflutningabílar á leiðinni inn í göngin eru iðulega stöðvaðir með ýmsum ráðum þannig að fólk geti reynt að smygla sér með þeim norður á bóginn.

Alain Juppé, sem gerir sér vonir um að verða næsti forseti Frakklands, sagði nýverið að færa ætti landamæraeftirlitið við Ermarsunds­göngin frá Frakklandsenda þeirra í Calais yfir til Kent á Englandi. Bresk stjórnvöld hafa tekið illa í þá hugmynd.

Fyrr á þessu ári voru búðirnar minnkaðar um helming, en ekki fækkaði íbúum þar neitt. Þegar mest var höfðust þar við um tíu þúsund manns. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×