Þrír voru handteknir fyrir utan Hótel Sigló á Siglufirði upp úr klukkan tólf í dag vegna gruns um meðferð skotvopna. Mennirnir eru nú í yfirheyrslu hjá lögreglunni í Fjallabyggð en lagt var hald á skotvopn við handtökuna. RÚV greindi fyrst frá.
Lögreglan í Fjallabyggð gat ekki staðfest hvort um raunverulegt skotvopn eða leikfangabyssu væri að ræða en enn ætti eftir að rannsaka skotvopnið. Málið er til rannsóknar lögreglu.
Hótelstjórinn Finnur Yngi Kristinsson vildi ekki tjá sig um málið í samtali við fréttastofu að öðru leyti en því að þrír hefðu verið handteknir fyrir utan hótelið.
