Viðskipti innlent

Sjálfboðaliðum að fjölga á vinnumarkaði

Sæunn Gísladóttir skrifar
Sjálfboðaliðar starfa oft í ferðaþjónustu.
Sjálfboðaliðar starfa oft í ferðaþjónustu. Vísir/Getty
Svartri vinnustarfsemi hér á landi gæti verið að fjölga í ljósi aukningar óskráðra starfsmanna og fleiri sjálfboðaliðum í ferðaþjónustu og öðrum geirum. Í einhverjum tilfellum jaðrar sjálfboðaliðavinnan við vinnumannsal. Þetta er mat Róberts Farestveits, hagfræðings hjá ASÍ. Hagspá ASÍ kom út á fimmtudag.

Í hagspánni kemur fram að störfum sem erlent starfsfólk sinnir hefur farið fjölgandi og vaxandi þörf sé fyrir erlendu vinnuafli í ljósi minnkandi atvinnuleysis hér á landi og starfsmannaskorts.

Fjölgun starfa gæti verið vanmetin hér á landi í ljósi þess að „óskráðum“ starfsmönnum er að fjölga sem og tímabundnum starfsmönnum og sjálfboðaliðum að mati Róberts. Tímabundnum starfsmönnum starfsmannaleiga hefur fjölgað úr engum í byrjun árs 2015 í tæplega níu hundruð í september 2016. Tímabundnum starfsmönnum þjónustufyrirtæja hefur fjölgað úr nærri engum í um 300 á sama tímabili.

„ASÍ og skatturinn halda úti vinnustaðaeftirliti, það sem þeir eru að taka eftir í vaxandi mæli eru að hér séu tímabundnir starfsmenn sem ekki eru með kennitölu og koma þannig ekki fram í neinni tölfræði yfir vinnumarkaðinn. Við vitum ekki hvað þetta eru margir en þeir sem eru í eftirlitinu tala um að þetta sé að aukast,“ segir Róbert.
Róbert Farestveit, hagfræðingur hjá ASÍ.Mynd/ASÍ
„Starfsmannaleigur hafa þekkst áður en það að séu óskráðir tímabundnir starfsmenn er nýtt,“ segir Róbert og segir að brotastarsemi hafi aukist að undanförnu.

„Oft eru þetta starfsmenn sem eru í svartri vinnu og fá greidd laun sem eru undir kjarasamningum. Þetta er að sjást bæði í ferðaþjónustu og byggingageiranum,“ segir Róbert.

Hann bendir á að ef sjálfboðaliði kemur til landsins að vinna til dæmis í ferðaþjónustu sé hann eiginlega flokkaður sem ferðamaður. Róbert segir suma sjálfboðaliðastarfsemi ekki löglega. „Efnahagsleg starfsemi sjálfboða eru ekki lögleg, gagnvart skattinum eða öðru slíku, góðgerðarstarfsemi er annað mál, en sjálfboðaliði á hóteli er auðvitað ekki sjálfboðaliði hann á að fá greitt.“

„Við getum ekki svarað hversu margir þetta eru. Í einhverjum tilfellum jaðrar þetta við vinnumannssal en í öðrum tilfellum er þetta svört starfsemi,“ segir Róbert.

Hann bendir á að þetta geti veikt samkeppnisstöðu þeirra sem reiða sig ekki á sjálfboðaliða eða svart vinnuafl.


Tengdar fréttir

Vaxandi ójöfnuður á Íslandi

Vísbendingar eru um að ójöfnuður sé að aukast á ný í íslensku samfélagi samkvæmt hagspá Alþýðusambandsins. Ríkasti hluti þjóðarinnar á um tvo þriðju af öllum eignum landsins og fær til sín um helming allra ráðstöfunartekna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×