Erlent

Hættur við að slíta pólitískum tengslum við Bandaríkin

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Duterte virðist ekki mjög hrifinn af utanríkisstefnu Bandaríkjanna.
Duterte virðist ekki mjög hrifinn af utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Forseti Filippseyja hefur dregið til baka tilkynningu sína frá því á fimmtudag að landið ætlaði sér að slíta öll tengsl við Bandaríkin. Hann lét þau orð falla á meðan hann var í heimsókn í Kína að Filippseyja ætluðu sér að slíta alla viðskipta- og hernaðarsamninga við Bandaríkin. Í sömu ræðu sagðist hann ætla að hitta Vladimir Putin rússlandsforseta til þess að ræða bandalag á milli landanna.

Í dag virðist honum þó hafa snúist hugur.

„Við ætlum ekki að slíta tengsl okkar við Bandaríkin,“ sagði hann í yfirlýsingu sem hann gaf út frá heimili sínu í borginni Davao. „Það myndi þýða að við ætluðum okkur að slíta öll pólitísk tengsl við landið. Við getum ekki gert það? Hvers vegna ekki? Það væri betra fyrir hagsmuni landsins míns að við viðhöldum samskiptum við þá.“

Hugarfarsbreyting fremur en formleg slit

Duterte reyndi að útskýra fyrri tilkynningu sína á þann hátt að um hugarfarsbreytingu væri að ræða frekar en pólitíska ákvörðun.

„Það sem ég var í raun að segja var að við erum að færast frá þeim í utanríkisstefnu okkar. Hér áður fyrr, þar til ég varð forseti, höfum við alltaf fylgt því sem Bandaríkin hafa ákveðið að gera. Það hefur verið ætlast til þess að Filippseyjar fylgi utanríkisstefnu þeirra í einu og öllu. Það ætla ég ekki að gera.“

Talsmenn Hvíta hússins fögnuðu þessari skilgreiningu Duterte og sögðu hana meira í ætt við sjötíu ára bandalag þjóðanna.

Duterte hefur verið mjög harðorður í garð Barack Obama forseta Bandaríkjanna og meðal annars kallað hann „tíkarson“ eftir að hann afboðaði fyrirhugaðan fund þeirra á milli. Duterte baðst síðar afsökunar á þeim orðum sínum.


Tengdar fréttir

Duterte líkir sjálfum sér við Hitler

Forseti Filippseyja segir að á Fillipseyjum væru þrjár milljónir eiturlyfjasjúklinga og að hann myndi glaður vilja slátra þeim öllum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×