Enski boltinn

Shelvey ákærður fyrir að beita liðsfélaga Jóns Daða kynþáttaníði

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jonjo Shelvey í smá veseni.
Jonjo Shelvey í smá veseni. vísir/getty
Jonjo Shelvey, leikmaður toppliðs Newcastle í ensku B-deildinni í fótbolta, hefur verið ákærður af enska knattspyrnusambandinu fyrir að beita leikmann Úlfanna kynþáttaníði fyrir tveimur mánuðum.

Shelvey fær til 16. nóvember til að svara ákærunni en atvikið átti sér stað í leik liðanna 17. september sem Úlfarnir unnu á St. James Park í Newcastle, 2-0.

Í yfirlýsingu frá enska knattspyrnusambandinu segir: „Því er haldið fram að í kringum 87. mínútu leiksins notaði hann móðgandi og/eða særandi orð í garð leikmanns Wolves. Enn fremur er því haldið fram að það sem sem sagt var brjóti reglur enska knattspyrnusambandsins er varðar kynþátt eða þjóðerni.“

Málið er búið að vera lengi í rannsókn en gangist Shelvey við kærunni fer hann í að minnsta kosti í fimm leikja bann. Hafni hann ákærunni þarf hlutlaus nefnd innan sambandsins að ákveða hvort hann sé sekur eða ekki.

Jonjo Shelvey er að spila vel fyrir Newcastle en hann er búinn að skora þrjú mörk af miðjunni í 16 leikjum fyrir liðið sem er með þriggja stiga forskot á toppi ensku B-deildarinnar.

Íslenski landsliðsmaðurinn Jón Daði Böðvarsson leikur með Úlfunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×