Innlent

Eir leyft fyrir karla og konur

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Stúlka eða drengur? Barnið má í báðum tilfellum heita Eir.
Stúlka eða drengur? Barnið má í báðum tilfellum heita Eir. Vísir/NORDIC PHOTOS/GETTY
Níu nöfn bættust á mannanafnaskrá í liðnum mánuði en einni nafnumsókn var hafnað. Úrskurðir mannanafnanefndar voru birtir í gær.

Sonya var eina nafnið sem var hafnað þar sem ritháttur þess samræmdist ekki íslenskum ritreglum og ekki þótti það hafa hefðast hérlendis.

Karlmannsnafnið Lyngþór var samþykkt sem og nafnið Neró. Hið síðara var vafaatriði þar sem nafn má ekki vera nafnbera til ama. Vísaði nefndin í því samhengi til Rómarkeisarans Nerós sem á að hafa leikið á fiðlu meðan hann horfði á borg sína brenna. Ólíklegt þótti að nafnið hefði jafn neikvæða merkingu nú og áður.

Eiginnafnið Eir hefur hingað til verið á skrá sem kvenmannsnafn en er nú einnig karlmannsnafn. Það bætist í hóp nafna sem eru hvort tveggja karlmannsnafn og kvenmannsnafn en þar eru fyrir Blær, Auður og Júní.

Auk fyrrgreindra nafna fengust kvenmannsnöfnin Elínóra, Manasína, Snekkja og Arabella samþykkt. Sömu sögu er að segja af Skjaldmey en afar langsótt þótti að það teldist vera starfsheiti í dag. Að endingu var millinafnið Reyðfjörð samþykkt.



Fréttin birst fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×