Innlent

Dæmdur fyrir árás gegn sjö ára barni: „Svona búmm, búmm, beint í vegginn“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Drengurinn lýsti því við skýrslutöku lögreglu með látbragði og orðum hvernig faðirinn hefði tekið í hár sitt og ýtt höfði sínu aftur: „Svona búmm, búmm, beint í vegginn,“ sagði drengurinn.
Drengurinn lýsti því við skýrslutöku lögreglu með látbragði og orðum hvernig faðirinn hefði tekið í hár sitt og ýtt höfði sínu aftur: „Svona búmm, búmm, beint í vegginn,“ sagði drengurinn. vísir/valli
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann, sem ákærður var fyrir brot gegn barnaverndarlögum og líkamsárás gegn sjö ára dreng, til þess að greiða 300 þúsund króna sekt til ríkissjóðs. Maðurinn var sakaður um að hafa rifið í hár drengsins og slengt höfði hans í vegg á síðasta ári með þeim afleiðingum að drengurinn hlaut yfirborðsáverka á hársverði.

Drengurinn sagðist í skýrslutöku lögreglu hafa verið að leika sér við vin sinn inni í búningsklefa og lyft honum upp, með þeim afleiðingum að vinur hans datt í gólfið og meiddi sig. Hann sagði föður vinar síns hafa komið inn í búningsklefann skömmu síðar og orðið mjög reiður, rifið í hár sitt og slengt höfði sínu í vegg allt að fimm sinnum.

Ákærði neitaði sök í málinu. Sagðist hann hafa komið að syni sínum, sem hafi verið með sprungna vör og grátandi í búningsklefanum eftir að hafa dottið á andlitið, og því óskað eftir skýringum frá vini sonar síns. Drengurinn hafi hins vegar ekki viljað tala við sig og togað bol sinn yfir höfuðið. Því hafi hann reynt að losa bolinn með fingri og sagðist hann ekki útiloka það að fingurinn hefði þá strokist við andlit drengsins. Þá hafi hann sagt við drenginn að hann myndi ræða við foreldra hans og þjálfara, og í kjölfarið yfirgefið búningsklefann.

Þegar frásögn drengsins var borin undir manninn sagðist hann ekki vita hvað hann ætti að segja, en að kannski hafi drengurinn rykkt sér til þegar hann reyndi að toga í bol hans, með þeim afleiðingurinn að drengurinn hafi rekið höfuðið í vegginn, án þess þó að hafa veitt því athygli.

Drengurinn lýsti því við skýrslutöku lögreglu með látbragði og orðum hvernig faðirinn hefði tekið í hár sitt og ýtt höfði sínu aftur: „Svona búmm, búmm, beint í vegginn,“ sagði drengurinn.

Hann sagði höfuð sitt hafa farið „mjög oft“ í vegginn, eða „svona fimm eða tíu sinnum.“ Lýsti hann því jafnframt að veggurinn hafi ekki verið sléttur, heldur eins og malbil, og að það hefðu verið „oddar“ á veggnum. Þá hafi faðirinn sagt við sig „Svaraðu, svaraðu“ á meðan hann hafi gert þetta. Drengnum sagðist hafa liðið mjög illa og farið að hágráta.

Í niðurstöðu dómsins segir að samræmi hafi verið í framburði drengsins og annars drengs, átta ára, sem var inni í búningsklefanum þegar atvikið átti sér stað. Sá fyrrnefndi hafi hins vegar gengið lengra í lýsingunum.

Þá segir í dómnum að litið hafi verið til þess að gögn málsins beri með sér að maðurinn hafi verið í ójafnvægi þegar hann olli brotinu eftir að hafa komið að syni sínum meiddum í búningsklefanum. Hæfileg refsing hafi verið ákveðin 300 þúsund króna sektargreiðsla, innan fjögurra vikna, en ella sæti maðurinn fangelsi í 20 daga. Maðurinn hefur ekki sætt refsingu áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×